Pólitískar njósnir þarf að banna í stjórnarskrá

Í Reykjavíkurbréfi Mbl. í gær segir: “Það er ósköp skiljanlegt að Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra, eigi erfitt með að skilja að sími hans var hleraður. Í augum þeirra, sem óskuðu eftir hlerun á síma hans á þessum árum, var hann einn helsti forystumaður nýrrar kynslóðar, sem barðist gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Og þeir spurðu sig alltaf, hvort hann og skoðanabræður hans myndu grípa til sömu aðgerða og skoðanabræður hans höfðu gert áratug áður. Ekki síst í ljósi þess, að sumir þeirra, sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið 1949, voru samstarfsmenn hans í Friðlýstu landi.” Sú söguskoðun að átökin á Austurvelli 1949 hafi verið byltingartilraun kommúnista eða fyrirfram skipulögð árás er að sjálfsögðu fjarstæða og í engu samræmi við heimildir. En sleppum því; ég var þar ekki nærstaddur enda aðeins tíu ára gamall. Hitt er enn augljósara að tilvísanir í þessi átök munu aldrei duga Morgunblaðinu til að afsaka símahleranir stjórnvalda 14 árum síðar hjá alþingismanni í stjórnarandstöðu árið 1963. Þær duga enn síður til að afsaka símahleranir valdhafa árið 1961 hjá alþingismönnunum, Hannibal Valdimarssyni, þáverandi forseta Alþýðusambandsins, og Lúðvík Jósefssyni, sem þremur árum áður hafði sem sjávarútvegsráðherra haft forystu um útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Báðir þessir menn greiddu að vísu atkvæði gegn aðild Íslands að NATO. En tólf árum síðar var ekki verið að fjalla um herinn eða NATO eða annað það sem Bandaríkjamenn, óumdeildir frumkvöðlar þessara persónunjósna, höfðu áhuga á. Það var verið að ræða um framtíð landhelgismálsins. Valdhafana skorti upplýsingar um hvað væri að gerast í herbúðum stjórnarandstæðinga og þeir fyrirskipuðu víðtækar símahleranir. Stjórnmálamenn létu starfsmenn ríkisins njósna um aðra stjórnmálamenn og virðast hafa talið sér trú um að þau vinnubrögð væru sjálfsagt mál. Því miður reyna pólitískir arftakar þeirra að koma sér hjá því að viðurkenna að svo var ekki. Ég hygg þó að þeir muni fyrr eða síðar játa það. Jafnframt er ég að vona að þverpólitísk samstaða skapist um að tryggja að símahleranir og aðrar persónunjósnir í pólitískum tilgangi verði nú með öllu bannaðar með ákvæði í stjórnarskrá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er allaf matsatriði á hverjum tíma hver er hættulegur og hver ekki og mun alltaf verða svo.  Sá sem hlerar telur sig aldrei vera að því í "pólitískum" tilgangi heldur alltaf af öryggissjónarmiðum.  Flestir eru samþykkir því að hleranir og aðrar aðferðir eigi að nota á t.d. eiturlyfjabaróna og -sölumenn.  Það verður að vanda valið á því sem fer inn í stjórnarskrá svo hún "þynnist" ekki út í einhverju málæði.  Boðorðin 10 eru bara tíu og hafa dugað lengi.  Pössum okkur.

Sigurður Viktor Úlfarsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband