Ný fjárkúgun í uppsiglingu?

Ýmislegt bendir til þess að nú fyrir áramótin muni framkvæmdastjórn ESB reyna að þvinga Íslendinga til að auka greiðslur sínar í sjóði ESB um mörg hundruð milljónir króna ef marka má frétt í norska blaðinu Nationen 9. des. s.l. Tilefnið er innganga Rúmena og Búlgara í ESB um áramótin en ESB-ríki verða jafnframt að vera aðilar að EES. Í þeim samningi var gert ráð fyrir greiðslum Noregs, Íslands og Lichtenstein í sjóði ESB í fimm ár. En þegar þeim tíma lauk hóf ESB að þvinga Noreg, Ísland og Lichtenstein til að halda þeim greiðslum áfram þvert á efni samningsins og enn jukust kröfurnar þegar ný aðildarríki ESB bættust við. Þó skal tekið fram að greiðslur okkar til ESB út af EES-samningnum eru aðeins brot af því sem yrði ef við gerðumst aðilar að ESB.

Frá Noregi berast nú þær fréttir að viðbótarupphæðin sem ESB reynir að ná út úr Norðmönnum sé hálfur milljarður norskra króna, þ.e. um 6000 millj. ísl kr. Hver krafan er á hendur Íslendingum hefur ekki komið fram í fréttum svo mér sé kunnugt um. En vafalaust nemur hún a.m.k. hátt á annað hundrað milljónum króna. Er ekki tími til kominn að fjölmiðlar grennslist fyrir um þetta mál?


Allende og blóðbað Pinochets

Augusto Pinochet var jarðsettur í gær. Það minnir mig á að í september 1972 sat ég alþjóðlega ráðstefnu í Chile og hitti þar Salvador Allende, forseta landsins. Hann var spurður að því hvort hætta væri á því að herinn myndi ræna völdum í Chile. Allende taldi litla hættu á því. Hann hefði fyrir nokkru skipað nýjan yfirhershöfðingja. Sá hefði engin afskipti haft af stjórnmálum og væri áreiðanlega fráhverfur því að steypa löglega kjörinni stjórn landsins af stóli. Nafn hins lítt þekkta yfirhershöfðingja var Augusto Pinochet.

 

Chile var á þessum árum eitt þróaðasta ríki Rómönsku Ameríku. Þar hafði lýðræði og þingræði blómstrað í tæpa fjóra áratugi og lífskjör voru þar betri en í nálægum löndum. Þegar talið barst að einræðisstjórnum sem víða voru við völd í þessari heimsálfu var viðkvæði heimamanna: “Slíkt gerist ekki hjá okkur.” En í september árið eftir að ég hlýddi á Allende ræða um yfirhershöfðingja sinn, Pinochet, sem ópólitískan verndara lýðræðisins, tók herinn völdin undir forystu hans og með stuðningi Bandaríkjastjórnar; Allende forseti var myrtur og blóðbaðið mikla hófst.


Dollarísering og evruvæðing

Er unnt að taka upp evru í stað krónu án þess að ganga í ESB? Algengt er að ákafir áhugamenn um aðild að ESB svari þeirri spurningu neitandi vegna þess að þeir vilja virkja þann áhuga sem vaknar á evru sem mynt þegar gengi ísl. krónunnar sveiflast óhóflega. En rétt svar við spurningunni er þvert á móti að Íslendingar gætu innleitt evru í viðskiptum hér á landi í stað krónu án afskipta eða leyfis seðlabanka evrunnar með því einu að kaupa upp þær ísl. krónur sem eru í umferð og nota í því skyni hluta gjaldeyrisvarasjóðsins en stærsti hluti hans er varðveittur í evrum. Til þess þyrfti 13-14 milljarða evra en í gjaldeyrisvarasjóðnum er varðveitt ríflega tvöföld sú upphæð í evrum. Þessi leið hefur lengi blasað við enda hefur hún verið reynd í öðrum löndum, t.d. Panama, og nefnist á máli fræðimanna “dollarísering”.

Fram að þessu hefur þó enginn mælt með því að þessi leið sé valin hér á landi, einfaldlega vegna þess að upptöku evru fylgja margir veigamiklir ókostir, og m.a. þeir að sjálfstæð peningastefna í íslensku hagkerfi hverfur þá úr sögunni. Sú leið sem hér er nefnd er einmitt gerð að umtalsefni í grein Björns Rúnars Guðmundssonar, sérfræðings greiningardeildar Landsbanka Íslands, í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: Myntráð án myntar – leiðin inn í evruna?

Björn Rúnar ræðir reyndar um aðrar leiðir eins og svokallað “myntráð”, svo og um sambland “dollaríseringar” og “myntráðs” en bætir við hugleiðingum um “peningalaust hagkerfi”. Hann bendir á að hlutfall seðla og myntar hér á landi sé langtum lægra en annars staðar þekkist eða aðeins um 2,5% og fari minnkandi en viðurkennir að erfitt verði að skipta algerlega yfir í rafrænar færslur þar sem stór hluti eldra fólks hafi ekki tileinkað sér tæknina.

Björn Rúnar viðurkennir að meginvandinn við það að hverfa frá sjálfstæðri íslenskri mynt sé sú að við glötum þeim “hagræna öryggisventli” sem felst í sjálfstæðri peningastefnu. Sveiflur í íslenska hagkerfinu eru gjörólíkar hagsveiflum á evrusvæðinu. Segja má að megingallinn á grein Björns sé einmitt sá að hann fjallar lítið sem ekkert um það hvernig bregðast ætti við þessum vanda sem þó er augljóslega kjarni málsins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband