Föstudagur, 26. október 2007
Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB
Sagt hefur verið að þjóðir sem ánetjast samrunaferli ESB lendi strax í þeim vítahring að þær eru látnar kjósa aftur og aftur í þjóðaratkvæðagreiðslum ef niðurstöðurnar falla ekki að áformum forvígismanna ESB. Þetta hafa Norðmenn, Danir og Írar margreynt. En ef niðurstaðan er jákvæð er aldrei kosið aftur. Frakkar og Hollendingar felldu fyrirhugaða stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði og vitað var með vissu að sama myndi gerast í Bretlandi. Lausn leiðtoga ESB liggur nú fyrir: þeir hafa komið sér saman um nýjan samning með efnislega hliðstæðu innihaldi en í nýjum umbúðum og undir nýju nafni. Í stað þess að láta kjósa upp á nýtt, eins og gamla aðferðin var, þá ætla þeir af ótta við kjósendur að hundsa álit almennings með öllu og sleppa þjóðaratkvæði um nýja samninginn nema hjá því verði alls ekki komist. Stóraukið fullveldisafsal aðildarríkja ESB verður þvingað fram án þess að leita eftir vilja íbúanna.Nú kynni einhver lesandinn að halda að hér sé ekki rétt frá skýrt og nýi samningurinn sé einfaldlega annars eðlis. Ég vil því vitna til ummæla Valery Giscard dEstaing, fyrrv. forseta Frakka, orðum mínum til staðfestingar, en hann hafði yfirumsjón með gerð stjórnarskrárdraganna. Hann sagði blátt áfram á Evrópuþinginu 17. júlí s.l: Innihaldið er það sama og í stjórnarskránni sem hafnað var, en forminu hefur verið breytt úr læsilegri stjórnarskrá og yfir í tvö óskiljanleg drög að milliríkjasamningum.Nú um helgina lék mér forvitni á að fá að vita hvort ákvæðið um úrslitayfirráð ESB yfir lífríki sjávar við strendur aðildarríkja með sameiginlegri yfirstjórn fiskveiðimála væri inni í Lissabon-samningnum. Ekki reyndist auðsótt að fá botn í það mál. Í stað samhangandi texta eru nú settir fram 14 milliríkjasamningar og texti þeirra er ekki samhangandi heldur í formi orðalagsbreytinga á samningum sem áður hafa verið samþykktir. Því þarf að bera saman mörg skjöl til að botn fáist í samhengið.Textinn um úrslitayfirráð ESB yfir 200 mílna lögsögu aðildarríkjanna var áður að finna í gr. I.13 í stjórnarskránni en er nú orðréttur eins og hann var þar í einum af nýju samningnum undir fyrirsögninni B. Specific Amendments 19) Title I Article 3 (d): "The Union shall have exclusive competence to establish competition rules within the internal market, and in the following areas . . . the conservation of marine biological resources under the common fisheries policy. " Þetta er mikilvægt fyrir Íslendinga að vita. Vafalaust munu þeir seint sætta sig við að úrslitaákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna innan 200 mílna lögsögunnar verði teknar í ráherraráði ESB á árlegum næturfundum sem meðal innanbúðarmanna þar á bæ nefnast: nótt hinna löngu hnífa en þar myndi Ísland hafa innan við 1 % atkvæða.En hver er svo skýringin á því að leiðtogar ESB hafa sent frá sér ígildi stjórnarskrár í formi sundurslitins samsafns af lagatextum sem erfitt er að átta sig á. Skýringin er einföld þótt hún hljómi ótrúlega. Við skulum láta fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, núverandi innanríkisráðherra, gefa okkur skýringuna. Hann sagði 16. júlí s.l. samkvæmt euobserver.com að stjórnarskráin hefði vísvitandi verið gerð ólæsileg fyrir borgarana til þess beinlínis að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum: Þeir (ESB-leiðtogar) ákváðu að skjalið ætti að vera ólæsilegt. Ef það er ólæsilegt er það ekki í eðli sínu stjórnarskrá, þetta var viðhorfið. Ef mögulegt hefði verið að skilja textann við fyrstu sýn hefði kannski skapast grundvöllur fyrir þjóðaratkvæði, því að það hefði þýtt, að þar væri eitthvað nýtt að finna. (Ræða hjá Center for European Reform í Lundúnum 12. júlí s.l. Heimild: euobserver.com 16. júlí 2007.)Þetta er óneitanlega makalaus vitnisburður um það virðingarleysi fyrir lýðræðinu sem viðgengst í stofnunum ESB.Breytingarnar frá núverandi skipulagi sem felast í Lissabon-samningnum eru tvímælalaust mjög mikilvægar og fela í sér stórt skref í átt til formlegs stórríkis. ESB fær nú bæði forseta sem ekki gegnir öðru starfi og utanríkisráðherra þótt sá síðarnefndi verði ekki nefndur því nafni eins og stjórnarskráin gerði ráð fyrir heldur High Representative. Í stjórnarskránni voru tiltekin fjögur sígild ríkistákn: fáni, mynt, þjóðsöngur og þjóðhátíðardagur en þessi ákvæði eru ekki í nýja samningnum. Þetta eru einmitt ágæt dæmi um feluleikinn og þá sýndarbreytingu sem gerð var á stjórnarskrárdrögunum því að fáninn, myntin, þjóðsöngurinn og þjóðhátíðardagurinn eru þegar til í reynd og verða það áfram. Vafalaust er mikilvægasta breytingin frá núgildandi skipulagi fólgin í því að neitunarvald aðildarríkja er afnumið á rúmlega 60 sviðum og í staðinn koma meirihluta ákvarðanir þar sem krafist er að 55% aðildarríkjanna hafi greitt lagafrumvarpi atkvæði og þeir sem veiti samþykki sitt hafi 65% af íbúum ESB að baki sér. Þetta var nákvæmlega eins í stjórnarskrárdrögunum. Tæpast þarf að taka það fram að þessi tilhögun eykur mjög áhrifamátt stóru ríkjanna en er að sama skapi óhagstæð fyrir smáríkin. Í ríkjabandalögum er oftast reynt að tryggja að stór ríki vaði ekki algjörlega yfir smáríki með sérstökum stofnunum til hliðar við meginþingið. Sem dæmi má nefna öldungadeild bandaríska þingsins þar sem hvert fylki fær tvo þingmenn óháð fólksfjölda. Svipað gildir í sambandsráði Þýskalands. Hins vegar er ekkert slíkt að finna í stofnanakerfi ESB. Þingmannafjöldi á ESB-þinginu verður 750 en Ísland myndi fá 6 þingmenn við aðild og eru það 0,8% áhrif og í ráðherraráðinu fengju Íslendingar 3 atkvæði af 348 eða um 0,86%.Atkvæðavægi smáríkja innan ESB hefur jafnt og þétt farið minnkandi. Sem dæmi má nefna að Þjóðverjar höfðu þrefalt fleiri atkvæði en Danir í ráðherraráðinu, valdamestu stofnun ESB, þegar Danir gengu í bandalagið (þ.e. í EBE fyrir rúmum þremur áratugum). En þeir fá nú fimmtán sinnum fleiri atkvæði en Danir. Mannfjöldi Þýskalands óx um þriðjung við sameiningu þýsku ríkjanna en það skýrir ekki nema að litlu leyti þá breytingu sem orðið hefur á atkvæðavægi þessara tveggja ríkja. Þróunin hefur ótvírætt verið smáríkjum óhagstæð á liðnum áratugum og Lissabons-samningurinn opnar nýjar leiðir fyrir stóru ríkin til að auka áhrif sín enn frekar á kostnað þeirra smærri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef sagt og segi enn, það er ekkert annað en svikráð við Fullveldi okkar, að semja okkur inn í bæði EES og Schengen.
Ég var og er raunar enn, talsmaður TVÍHLIÐA SAMNINGA að hætti Sviss.
Það er morgunljóst, að okkur hefði farnast mun betur, hefðum við farið þá braut á sínum tíma.
Hef rifist um þetta við EESsinna innan míns elskaða Flokks og uppskorði viðurnefni, sem ég svosem er ekkert óánægður með og kvitta tíðum undir pósta með því.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 26.10.2007 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.