Evruhlátur breyttist í dollaraglott

Hann gengur á með éljum í aðdraganda kosninga. Í því seinasta var ákaft fullyrt að fyrirtækin hefðu kveðið upp dauðadóm yfir krónunni og gerðu upp reikninga sína í evrum. Nú hefur því éli slotað. Í ljós kom að flest þessi fyrirtæki völdu dollarann!Áköfustu ESB-sinnar efndu til upphlaups sem stóð í nokkrar vikur og gekk út á að fyrirtækin í landinu væru að “yfirgefa krónuna og færðu ársreikninga sína í evrum”. Yfirlýsingar formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Ingibjargar Sólrúnar, í miðju áróðursélinu vöktu hvað mesta athygli, en hún hélt því fram hvað eftir annað að fyrirtækin væru með þessu að “flýja krónuna” enda væri hún “handónýt”! Við yrðum að taka upp evru. Svo var ákafinn mikill í þessu máli að helst leit út fyrir að reynt væri að hrópa krónuna niður. Markaðurinn var gripinn fáti og gengið féll á nokkrum dögum um 3%. Til viðbótar komu fréttir um að Kaupþing væri “að flytja eigið fé sitt yfir í evrur”.  Nú hafa málin skýrst. Gengið hefur hækkað aftur um ríflega þessi 3% sem það féll og er nú hærra en það var á föstudag fyrir viku. Í ljós kom að fyrirtækin sem fengið hafa leyfi til að gera upp ársreikninga sína í erlendri mynt eru 167 og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, þ.e. 98 fyrirtæki, valdi ekki evru heldur Bandaríkjadal sem uppgjörsmynt. Innan við þriðjungur eða 51 fyrirtæki valdi evru, afgangurinn valdi pund, danskar, sænskar og norskar krónur og japönsk jen. Þessi fyrirtæki hafa þá sérstöðu að meginstarfsemi þeirra fer fram erlendis eða þau eiga erlend dótturfyrirtæki og/eða hafa verulegan hluta tekna sinna í erlendri mynt. Þessu fylgir augljóst hagræði fyrir þá sem starfa fyrst og fremst í erlendu markaðsumhverfi. Að sjálfsögðu breytir þetta hins vegar engu hvað krónuna varðar. Fyrirtæki og einstaklingar geta í dag tekið lán í erlendri mynt. Form ársreiknings breytir heldur engu um hvar fyrirtækin eru skattlögð. Þetta upphlaup reyndist því vera stormur í vatnsglasi. Síst verður dregin sú ályktun af þessum tíðindum að evran sé augljós arftaki krónunnar í augum ráðamanna íslenskra fyrirtækja. Sama gildir um þá æsifrétt að Kaupþing hafi um áramótin flutt “eigið fé sitt” yfir í evrur og sé að flýja land. Sú fullyrðing var á því byggð að í desember s.l. hækkaði nettógjaldeyrisstaða bankanna um 81 milljarð kr. Var sagt að þar ætti Kaupþing stærstan hlut. Kaupþing benti hins vegar á að bankarnir væru stöðugt að stækka við sig erlendis og því væri þörf á að stærri hluti af efnahagsreikningi þeirra væri í erlendri mynt. Þetta er fullgóð skýring. Þegar á það er einnig litið að nettógjaldeyriseign bankanna nú við áramótin er samtals nokkurn veginn eins og hún var í marsmánuði s.l. má sjá að það er fásinna að halda því fram að skyndileg ákvörðun hafi verið tekin í bönkunum um “að flýja krónuna”. Bankarnir standa í alls konar braski og í gær keypti Kaupþing tískuverslun í London fyrir rúma sex milljarða króna, væntanlega til að selja hana aftur! Er þá ekki sennilegt að bankarnir kaupi og selji gjaldeyri til að hagnast á hugsanlegum gengisbreytingum? Í dag var svo upplýst að Bandaríkjamenn hefðu keypt skuldabréf í íslenskum krónum fyrir 40 milljarða. Þeir hafa greinilega meiri trú á krónunni okkar en Ingibjörg Sólrún.     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll aftur, Ragnar.

Það er auðvitað alveg rétt, að sjávarútvegurinn stendur á bak við tæp 60% af vöruútflutningi, en sú lýsing gefur ranga mynd af vægi útvegsins í þjóðarbúskapnum, því að vöruútflutningurinn er aðeins hluti heildarútflutnings. Menn gætu eins sagt, að sjávarútvegurinn standi á bak við 100% af sjávarvöruútflutningi: það er að vísu rétt, en bæði merkingarlaust og villandi.

Það er með líku lagi villandi að miða útflutningstekjur sjávarútvegsins við vöruútflutning eingöngu. Það eiga menn því helzt ekki að gera, því að með því er of mikið gert úr vægi útvegsins í þjóðarbúskapnum, og með því er þá einnig verið að tefla óverðskulduðum völdum og áhrifum upp í hendur útvegsfyrirtækja.  Einmitt þannig fóru útvegsfyrirtækin að því að sölsa undir sig kvótann, sem á þó að heita þjóðareign samkvæmt lögum.

Allur útflutningur hvort heldur á vörum eða þjónustu er jafngildur í krónum talið. Þess vegna er rétt að miða útflutningstekjur sjávarútvegsins við heildarútflutningstekjur þjóðarbúsins, öðru nafni gjaldeyristekjur, frekar en við hluta útflutningsteknanna, þ.e. vöruútflutningstekjur.

Þannig skulum við hafa það.

Með beztu kveðjum og óskum,

Þorvaldur Gylfason.  

Þorvaldur Gylfason (IP-tala skráð) 13.1.2007 kl. 17:15

2 identicon

Vegna þeirra fullyrðinga að verðlag muni lækka á Íslandi ef evra kæmi í stað krónu skal eftirfarandi komið á framfæri: 

 Föstudagskvöldið 12. jan. var þátturinn “Mi manda Rai tre” á ítölsku  ríkissjónvarpsstöðinni Rai 3. Þar voru með nákvæmni og línuritum og öruggum uplýsingum Ít. neytendasamtakanna teknar út þær breytingar sem urðu á verði mestu nauðsynjar Ítala,  pasta,  við upptöku evru 2001. Hækkun sem kaupmenn og milliliðir hrifsuðu til sín um leið og neytendur glötuðu verðskyni sínu var nálægt 20 %. Kannast Íslendingar við eitthvað þessu líkt við myntbreytinguna 1981?

Á slóðinni hér að neðan verður þátturinn innan skamms birtur í rituðu máli. Síðasti þáttur sem nú er birtur þar er frá 22. des. 2006. Það gætu því liðið fáeinir dagar enn. Lengst til hægri, undir ”Archive” skal smella á ”Le  puntate” og velja dagsetninguna 12/1 2007.

Nokkur mál voru til umfjöllunar í þættinum og var þetta næst síðast eða síðast.

 

http://www.mimandaraitre.rai.it/MMR_servizio/0,10135,1067085,00.html

 

Virðingarfyllst,

Glúmur Gylfason

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband