Miðvikudagur, 14. mars 2007
Því er mjög haldið á lofti af áköfustu áhugamönnum um ESB-aðild að óhætt sé fyrir okkur Íslendinga að framselja yfirráðin yfir fiskimiðum okkar til Evrópusambandsins vegna þess að því megi treysta að ráðherraráð ESB myndi afhenda okkur alla veiðikvóta við strendur landsins til baka í samræmi við reglur ESB. Þetta sé því ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir tala minna um það að ráðherraráðið getur breytt reglum sínum hvenær sem er og fullljóst er að engin trygging fengist fyrir því í hugsanlegum aðildarsamningi Íslands að Evrópusambandið myndi stjórna sjávarútvegsmálum Íslendinga með viðunandi hætti á komandi árum.Þetta er eitt af mörgu sem kemur upp í hugann í tilefni af opnum umræðufundi sem haldinn verður í Norræna húsinu á morgun, fimmtudaginn 15. mars kl 12.10 til 13.30, en þar munu þeir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur, og Kolbeinn Árnason, lögmaður, ræða um íslenskan sjávarútveg og Evrópusambandið. Báðir eru þeir gagnkunnugir þessum málum en Kolbeinn er fyrrverandi skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og var lengi fulltrúi þess hjá fastanefnd Íslands við ESB.Svonefnd Evrópunefnd sem ríkisstjórnin skipaði eftir tilnefningu þingflokkanna hefur undanfarin þrjú ár rannsakað tengsl Íslands við ESB og skilaði í gær frá sér ítarlegri skýrslu. Eins og fram kemur í skýrslunni hélt nefndin fund nú í vetur með háttsettum embættismönnum ESB á sviði sjávarútvegsmála. Þar kom það skýrt fram að engar líkur væru á að samist gæti um það milli Íslands og ESB að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland yrði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda gæti slíkt ekki samrýmst svonefndri Sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB (CFP) og ætti sér engin fordæmi nema hvað varðaði afmörkuð fiskverndarhólf. Meginreglan er sú að í fiskveiðilögsögu ESB eiga öll aðildarríkin veiðirétt. Í framkvæmdinni er þó farið eftir samþykktum ráðherraráðsins um svokallaðan hlutfallslegan stöðugleika og samkvæmt þeirri reglu er hliðsjón höfð af sögulegri veiðireynslu. Fyrrnefndir sendimenn framkvæmdastjórnar ESB fullyrtu að við aðild Íslands myndu veiðiheimildir að mestu falla í hlut Íslendinga miðað við þá reglu. En jafnframt staðfestu þeir að reglan um hlutfallslegan stöðugleika byggist eingöngu á samþykktum ráðherraráðsins og ekkert er því til fyrirstöðu að reglunni verði breytt ef tilskilinn meirihluti yrði fyrir hendi.Þessar staðreyndir eru kjarnapunkturinn sem úrslitum hlýtur að ráða um afstöðu Íslendinga til fiskveiðistefnu ESB. Íslenska efnahagslögsagan er 758.000 ferkílómetrar að stærð eða ríflega sjö sinnum stærri en landið sjálft. Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í nefndinni létu bóka þá skoðun sína í niðurstöðum nefndarinnar að Íslendingar geti ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum. Engin trygging er fyrir því, að Íslendingar geti varið hagsmuna sína í þessu efni til frambúar sem aðilar að Evrópusambandinu, þar sem ráðherraráðið tekur úrslitaákvarðanir um hámarksafla og hvaða tegundir er leyfilegt að veiða svo og um veiðiaðferðir og veiðarfæri. Í ráðherraráðinu myndu Íslendingar aðeins ráða yfir 3 atkvæðum af 348 miðað við núverandi stærð ESB.Í bókun fulltrúa Frjálslynda flokksins kemur fram hliðstæð afstaða. Mikill meirihluti nefndarinnar var því þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt væri fyrir Íslendinga að standa áfram utan Evrópusambandsins eins og málum er nú háttað.Í bókun fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins var einnig á það bent að afli Íslendinga úr svonefndum flökkustofnum sem veiðast bæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar, þ.e. síld, loðna, kolmunni, rækja og karfi, er háður samningum við önnur nálæg ríki svo og við Evrópusambandið. Við aðild að ESB fellur niður réttur aðildarríkja til að gera sjálfstæða fiskveiðisamninga við önnur ríki og fer framkvæmdastjórn ESB með samningsumboð fyrir þeirra hönd. Íslendingar eiga oft í samningum við ESB um þessi veiðiréttindi og hefur oft verið tekist svo hart á um þessa hagsmuni, að viðræður hafa staðið yfir árum saman, sbr. nýlegar samningaviðræður um kolmunna. Ef til aðildar kæmi sæti Evrópusambandið hins vegar báðum megin við samningsborðið þegar tekist væri á um þessi mikilvægu veiðiréttindi. Fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi er það frágangssök og með öllu ógerlegt að sætta sig við þá aðstöðu enda hefur verðmæti þess afla sem fæst úr flökkustofnum verið nærri þriðjungur af heildaraflaverðmæti landsmanna mörg undanfarin ár.
(Grein í Morgunblaðinu 14. mars 2007)
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Ragnar að draga þessi sannindi fram.
Þau eru nauðsynlegur grundvöllur hvers konar vangaveltu um Evrópusambandið.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 15.3.2007 kl. 01:05
Sammála, gleymum því ekki heldur að ef farið er inn í sambandið þá verður aldrei aftur snúið. Hvað eru aftur samin og sett mörg ný lög og nýjar reglur á mánuði í Brussel?
Glanni (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.