Laugardagur, 26. apríl 2008
Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?
Margir trúa því að við Íslendingar komumst ekki undan ESB-aðild vegna þess hve fljótandi gengi krónunnar sveiflast mikið á ólgusjó erlendra markaða. En vilja menn fórna 200 mílna landhelgi og margskonar fullveldisréttindum til að fá stöðugra gengi? Ég er sannfærður um að landsmenn samþykkja aldrei í þjóðaratkvæði að erlend ríki fái úrslitavald yfir fiskimiðum landsmanna, vald sem í eðli sínu er ígildi eignarréttar og nær yfir hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft.
Mikið var gert úr nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins og hún túlkuð sem stuðningur landsmanna við ESB-aðild þótt spurningin væri bæði loðin og leiðandi. Í september s.l. var niðurstaðan hjá sama blaði hins vegar þveröfug: 56% voru andvíg því að skipta út krónu fyrir evru og 51 % andvíg aðild. Skoðanakannanir um ESB-aðild sveiflast upp og niður og í þetta sinn hafði gengisfall krónunnar mikil áhrif. Alþjóðlegir markaðir verðfelldu krónuna vegna vandræða stóru íslensku bankanna sem erlendir keppinautar gerðu að skotmarki og stimpluðu sem risa á brauðfótum vegna þess hve mjög þeir hafa þanist út á fáum árum.
En bankarnir rétta brátt úr kútnum og gengi krónunnar nær aftur jafnvægi. Þótt of lágt gengi valdi erfiðleikum er alltof hátt gengi hálfu verra; það veldur stöðnun og atvinnuleysi þegar til lengri tíma er litið. Við getum hrósað happi meðan efnahagslífið er ekki gikkfast í ofurháu gengi evrunnar sem einmitt nú er stóra vandamálið á evrusvæðinu.
Hátt vaxtastig á Íslandi er önnur helsta röksemdin fyrir ESB-aðild. Háu vextirnir eru helsta tæki kerfisins í baráttu við ofþenslu og verðbólguháska. Sumir ESB-sinnar snúa reyndar vaxtaumræðunni á hvolf og fullyrða að sjálfstæð peningastefna sé einskis virði því að háir stýrivextir hafi engin áhrif. Það eru miklar ýkjur enda væri þá ekki kvartað svo mjög yfir háu vaxtastigi. Og sannarlega væri gott að vera laus við háu vextina. En þá þarf að finna önnur úrræði í stað stýrivaxta Seðlabankans og skapa stöðugleika með því að hafa hemil á stórframkvæmdum sem setja allt á annan endann. Hitt er aftur á móti hlægileg ögrun við heilbrigða skynsemi að nefna evruna sem bjargvætt í glímunni við verðbólgu. Augljóst er að á undanförnu þensluskeiði hefðu evruvextir verkað hér á landi sem olía á verðbólgueldinn. Engir hefðu komið jafn illa út úr því og launafólk. Sambland af alltof háu gengi evrunnar og lágum vöxtum kann að virðast girnilegur réttur við fyrstu sýn, en er í eðli sínu skaðlegasta mixtúra sem unnt væri að gefa efnahagslífi okkar eins og sakir standa og hefði valdið óðaverðbólgu en síðar stórfelldu atvinnuleysi þegar efnahagslífið hefði fest sig í sjálfheldunni.
Spurningin er þá: eru landsmenn orðnir svo þreyttir á fljótandi gengi krónunnar og meðfylgjandi gengisflökti að ekki verði hjá því komist að breyta til? Ef svo er mætti að sjálfsögðu taka aftur upp fast gengi sem sveiflast innan vissra marka miðað við meðalgengi nokkurra helstu mynta, svo sem evru, dollars og punds eins og var fyrir fáum árum. En hitt að fórna yfirráðum yfir fiskimiðunum til að geta tekið upp evru er að fara úr öskunni í eldinn. Þá væri þó skárra að taka upp gjaldmiðil ríkis sem ekki heimtar 200 mílna landhelgina í kaupbæti.
En talsmenn ESB-aðildar skauta alltaf létt framhjá landhelgismálinu og fullyrða blákalt að Íslendingar fengju undanþágur í sjávarútvegsmálum. Þeir benda einkum á undanþágu sem Danir fengu varðandi sumarbústaði útlendinga á vesturströnd Jótlands! Er þar ekki nokkuð ólíku saman að jafna? Vissulega finnast dæmi um undanþágur sem aðildarríki hafa fengið frá meginreglum ESB. En æðstu ráðamenn ESB hafa margsagt í viðræðum við íslensk stjórnvöld að Íslendingar geti aldrei undanþegið 200 mílna landhelgi sína; það myndi skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir, t.d. Breta sem haft hafa uppi sömu kröfu.
Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum. En menn verða að átta sig á að innganga í ESB er langtum óhagstæðari fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í engu Evrópuríki vegur útflutningur sjávarafurða eins þungt og hér á landi eða um 38% (2007) en um leið er fiskurinn eina auðlindin sem ESB hefur beinlínis lagt undir sína stjórn. Á árlegum ráðherrafundi ESB eru ákvarðanir teknar um nýtingu sameiginlegra fiskimiða og er sá fundur oft nefndur "nótt hinna löngu hnífa". Þar hefðu okkar menn 3 atkvæði af um 350.
Vel má vera að ráðherrar annarra ríkja sýni Íslendingum sanngirni og taki tillit til þess að við höfum setið einir að fiskimiðum okkar undanfarna áratugi. En eftir að við hefðum framselt þeim réttinn til að ráða yfir fiskimiðunum hefðum við enga tryggingu fyrir því að við yrðum ekki órétti beittir. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á stjórnarskrársáttmála ESB og þar er endanlega geirneglt að ESB hafi úrslitavald (exclusive competence) á sviði nýtingar sjávarauðlinda. Ljóst er að þessari meginreglu yrði ekki haggað í aðildarviðræðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála Ragnari Arnalds í Evrópumálum. ESB er afturkvarf til fortíðar og kúgunar.
Ólafur B. Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 20:33
Æj hvað það er alltaf sorglegt að lesa sömu gömlu skrifin aftur og aftur. Þrátt fyrir að ráðamenn Evrópusambandsins hafa komið og sagt á opnum fundi með Evrópunefndinni sem þú sast í að það væri enginn möguleiki á því að erlendir togarar fengju veiðiheimildir við Ísland eftir inngöngu í ESB þá ertu enn að birta greinar úr fortíðinni um sjávarútveginn og Evrópusambandið.. nema með viðbættu að ef við myndum fá undanþágur þá verðum við örugglega svikin - svo mikil er tortryggni þín út í þetta samstarf sem hefur reynst Evrópu svo vel.
.
Percy Westerlund, sendiherra ESB hér á landi skrifaði ágæta grein um þetta mál á síðasta ári þar sem hann sagði "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ein af grunnstoðum sjávarútvegsstefnu ESB og ekkert bendir til þess að henni verði haggað í fyrirsjáanlegri framtíð. Fræðilega séð er hægt að breyta reglunni með auknum meirihluta í ráðherraráði ESB. Hins vegar nýtur reglan víðtæks pólitísks stuðnings í ráðherraráðinu og aldrei hefur komið til alvarlegra álita að hrófla við henni þegar breytingar hafa verið gerðar á sjávarútvegsstefnunni (sem er endurskoðuð á tíu ára fresti). Að auki má benda á að Evrópudómstóllinn hefur oftar en einu sinni staðfest lögmæti reglunnar. Mikilvægast í þessu samhengi er þó að engar meiriháttar breytingar yrðu gerðar á sjávarútvegsstefnu ESB nema með samþykki þeirra aðildarríkja sem mestra þjóðarhagsmuna eiga að gæta."
.
Ég hef aldrei hitt talsmann evrópusambandsaðildar sem hefur skautað framhjá landhelgismálinu þegar rætt er um aðild - Heimsýnarmenn virðast segja þetta samt ansi oft ásamt því að reyna halda ranglega fram að erlendir togarar munu geta veitt við Íslandsmið við inngöngu í ESB. Þetta er bara leiðindarskotgrafarpólitík sem verður gaman að losna við þegar sótt verður um aðild að ESB og við getum rætt þessa hluti byggt á okkar eigin aðildarsamningum. Það er því hagsmunamál okkar allra að sækja sem fyrst um þannig að við gætum hætt að nota þær undanþágur sem Malta fékk undan sjávarútvegsstefnunni, eða Finnar undan landbúnaðarstefnunni sem dæmi.. því sama hvað talið verður fram, þeir sem eru á móti aðild munu alltaf snúa útúr þangað til hægt verður að sýna fram á þetta svart á hvítu - í aðildarsamningi Íslands að ESB.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 26.4.2008 kl. 20:50
Glæsileg grein, Ragnar, til hamingju með hana. Fjöldinn allur af íslenzkri alþýðu stendur með þér í þessu máli – nú er bara að virkja það fólk.
Jón Valur Jensson, 27.4.2008 kl. 03:32
og kvótagreifar skili kvótanum til þjóðarinnar sem þeir fengu ókeypis og hafa farið ránshendi yfir fiskimiðin engin ransókn eða notuð veiðafæri sem myndi fara betur með botninn bara brask og okur
bpm (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 11:35
Sumu fólki er eðlislægt að óttast alla hluti. Þetta er nefnt hugleysi og er ekki eftirsóknarvert ástand. Hugleysi á ekki síður við um efnahagsmál en önnur mál. Það lýsir sér meðal annars þannig, að fólk vill láta aðra stjórna efnahag sínum með þvingaðri sjóðasöfnun, altækum tryggingum og erlendri fjármálstjórn. Evrópu-sinnar eru dyggir liðsmenn þessa flokks hugleysinga.
Evrópu-sinnar leita víða réttlætingar á ástandi sínu, en forðast jafnframt að játa að frum-ástæða Evrópu-ástarinnar er hugleysi og óhjákvæmilegur fylgifiskur hugleysis, sem er skortur á sjálfsvirðingu. Þrátt fyrir ótrúlega sterka stöðu Íslendsks hagkerfis, tekst Evrópu-sinnum ávallt að finna einhverjar veikar hliðar á hagkerfinu, enda væri undarlegt ef það væri ekki hægt.
Sá "veikleiki" sem Evrópu-sinnar einkum hamra á, um þessar mundir, er Krónan. Hún þykir annað hvort of sterk, of veik eða sveiflast of mikið fyrir smekk þessara manna. Eina lausnin sem Evrópu-sinnum dettur í hug, er að leggja hana niður ! Ef hugleysið réði ekki för, myndi vera leitað annara lausna. Er ekki hugsanlegt að við sjálf berum einhverja ábyrgð á flökti Krónunnar og að við sjálf getum gert hana að sterkum gjaldmiðli ?
Ég tel hafið yfir allan vafa, að Krónuna sé hægt að gera að sterkum og stöðugum gjaldmiðli. Til þess að svo verði þarf allur almenningur að hafa áhuga á viðfangsefninu og vitneskju um lögmál hagstjórnar. Þetta er ekki réttur vettvangur til að kryfja málið til mergjar, en ég vil þó benda á eitt grundvallar atriði.
Viðskipti þjóðarinnar við útlönd verða að vera í jafnvægi og heldst jákvæð. Með öðrum orðum, "þjóðin má ekki eyða um efni fram". Auðvelt er að sýna fram á, að þessi einfalda regla ræður öllu um styrk og stöðugleika Krónunnar. Hvernig væri að við sýnum af okkur nokkra sjálfsvirðingu og fylgjum þeirri reglu: "að eyða ekki um efni fram" ? Nær öll önnur efnahagsleg "vandamál" munu hverfa eins og dögg fyrir Sólu !
Loftur Altice Þorsteinsson, 27.4.2008 kl. 12:12
Æi Jónas, flyttu bara til Evrópusambandsins fyrst þú ert svona hrifinn af því. Ég á eftir að sjá Íslendinga samþykkja það að gera sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og landhelgisstríðin að engu. Það er einfaldlega staðreynd að við myndum í raun engu ráða innan Evrópusambandsins eins og lesa má í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra og að yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða færðist til Brussel. Eftir það hefðum við enga stjórn á málum eða tryggingu fyrir einu eða neinu. Hvort sem þér líkar betur eða verr.
Gleymdu síðan ekki að góð vísa er aldrei of oft kveðið - og hvað þá kaldar staðreyndir.
Hjörtur J. Guðmundsson, 27.4.2008 kl. 23:28
Ragnar hin gamli allaballi, nú held ég að þér sér farið að förlast verulega, það er eins og þú hafir ekki búið á Íslandi sl. ár. Eg veit þó mæta vel að svo hefur verið, og setið í stjórn Seðlabanka Íslands, og hafðu mína þökk fryrir að samþykkja ekki hækkun launagr. til æðstu stjórnenda bankans sl. vor, sem var ein mesta þversögn er ég upplifði sl. ár að mennirir sem voru í orði að berjast gegn verðbólgu skildu gagna framfyrir skjöldu og hækka launin sín.
Það er flestum ljóst að með arfavitlausri stjórnun peningamála undanfarinn ár, er þú og aðrir í stjórn Seðalbankans að hrekja menn til að taka upp evru. Okurstýrivaxtastefna Seðalbankans er þú og aðrir stjórnarmenn hafið framfylgt á sl. árum, er þjóðarböl, með þessu hafið þið niðurgreitt innfluting, stuðlað að stórfeldum carrytradum, aukið misrétti þegna þessa lands þeir sem minna meiga sín hafa orðið að sæta þessum ofurkjörum, meðan þeir efnameiri hafa nýtt sér niðurgr. erl. gjaldmiðla. Nánast öll fyrirtæki í samkeppnisiðnaði hafa lagt upp laupana, eða flúið land. Það að halda aftur af verðbólgu með því að niðurgreiða gjaldeyrir, hlítur þér og öðrum vera orðið ljóst að gengur ekki lengur. Lækkiðið vextina ekki seinna en á morgun, og tengið ykkur við raunveruleikan. Það er öllum ljóst að á næstu árum verðum við að taka á okkur tímabundna kjararýrnun.
Framsal á fiskveiðiréttundum í hendur útlendinga, er stórt áhyggjuefni hjá þér, hélt kannski að ekki væri
ri minni ástæða fyrir þig að hugsa til þinna fyrrverandi kjósenda, sem sitja uppi í verðlausum eignum og ónýtum framleiðslufyrirtækum í flestum sjávarþorpum landsins. Stjórnun fiskveiða með framseljanlegu aflamarkskerfi, hef haft þann árangur að eftir aldarfjórðun hefur landaður afli nánast gengið saman um 2/3 í öllum tegundum, þó skal geta þess að Humarinn er að braggast eftir niðurburð sl. áratuga. Skuldseting sjávarútvegsins hefur aukist 14 falt, og útfl. á óunnu hráefni og hraðvinnsla úti á sjó aukist verulega. Hvað óttast þú? Hver er stefna VinstriGræna í þessum málum? Mín trú er að þeir sem hafa mestu fiskveiðiheimildirnar bíði bara eftir því að heimilt veri fyrir erl. fjárfesta að fjárfesta í kvótanum til að skera þá niður úr snörunni.
Það skal tekið fram að ég hef ekki myndað mér skoðun á ESB-aðild, , en óstjórn og arfavitlaus stjórnsýsla, aukin misskiping launa og óréttlæti hefur heldur þokað mér til aðildar. Laun fullmenntaðs kennara nemur í dag um 230 þúsund, þetta eitt segir mér að hér þarf að gera eitthvað rótækt í tekjuskipingu landsmanna.
Forréttinda og okursamfélagið þar að líða undir lok.
haraldurhar, 28.4.2008 kl. 01:10
Jónas Tryggvi! Spurningin um landhelgina og ESB snýst ekki um það hvað ég eða þú álítum að forystumenn ESB myndi gera ef við afhentum þeim yfirráðin yfir 200 mílna landhelgi okkar. Ef þeir hafna því að við fáum að undanþiggja þessa auðlind okkar þá getur enginn vitað hvernig þeir muni stjórna henni á komandi árum. Álit eða spádómar sendiherra ESB hafa heldur ekkert gildi, enn síður vitneskja um hvernig ákvarðanir eru teknar í dag. Aðalatriðið er að þeir geta breytt ákvörðunum sínum þegar þeim hentar. Hugsanlega yrðu þeir sanngjarnir gagnvart okkur fyrstu árin, hugsanlega ekki. Það sem ráðamenn í ESB segja og gera eftir nokkur ár kann að verða allt annað en það sem núverandi ráðamenn hugsa og segja. Það koma nýir menn, og skapast nýjar aðstæður, ný viðhorf. Íslenska þjóðin mun aldrei samþykkja að taka þvílíka áhættu hvað auðlindir sínar varðar. Og þarf þess ekki. Einmitt í því felst gildi sjálfstæðisins og það verðum við að varðveita. Malta fékk ekki raunverulega undanþágu frá meginreglu ESB um sameiginlega fiskveiðilögsögu aðildarríkja. Það er einfaldlega ekki rétt heldur venjulegur ESB-áróður. Þeir fengu að ákveða að aðeins smábátar mættu fiska á vissu svæði í kringum eyjuna og vörn Möltubúa felst þá í því að of langt er að sækja fyrir smábáta annarra ríkja. En meginreglu ESB var ekki haggað. Ekkert ríki hefur fengið varanlega undanþágu frá henni, í mesta lagi tímabundna undanþágu, þ.e. nokkurra ára aðlögunartíma.
Kveðja, Ragnar Arnalds
Ragnar Arnalds, 28.4.2008 kl. 10:56
Einhvern veginn finnst mér ólíklegt að ESB gæti mögulega stjórnað þessari auðlind sem sjávarútvegur okkar er verr en við gerum sjálf. Til þess þyrftu þeir að vera enn meiri pappakassar en undanfarnar ríkisstjórnir sem mér finnst einhvern-veginn ólíklegt.
Stefán (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:37
Sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB fær falleinkunn í nýrri skýrslu
Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins (ESB) fær falleinkunn í nýrri skýrslu sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn sambandsins. Fram kemur í skýrslunni að stefnan hafi leitt til feykilegs ofveiðivanda og gert það að verkum að sjávarútvegur í aðildarríkjum ESB er einn sá óarðbærasti í heimi.
Skýrslan var unnin fyrir framkvæmdastjórnina af óháðum sérfræðingum frá Evrópu og Bandaríkjunum og ekki stóð til að efni hennar yrði gert opinbert. Hinsvegar hefur breska blaðið Financial Times skýrsluna undir höndum og sagði það frá efni hennar í gær [26. september sl.]. Í henni kemur fram að áhrif of mikillar veiðigetu, miðstýringarvaldsins í Brussel og sérhagsmunahópa hafi leitt til þess að fjölmargir fiskveiðistofnar eru að hruni komnir. Alvarleiki ástandsins endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að framkvæmdastjórn ESB lýsti því yfir á miðvikudag að hún hygðist lögsækja sjö aðildarríki sambandsins fyrir að hafa veitt umfram útgefinn kvóta á túnfiski í Miðjarðahafinu og í austanverðu Atlantshafi í ár. Framkvæmdastjórnin bannaði túnfiskveiðar á dögunum vegna þessa og fram kemur í frétt Financial Times að líklegt er að Alþjóðatúnfiskveiðiráðið, sem gefur út kvóta á bláugga, muni refsa sambandinu með kvótaskerðingu þegar það kemur saman til fundar í nóvember.
Hvorki árangur í verndun né rekstri
Í skýrslunni segir að 80% af fiskistofnum innan lögsögu sambandsins séu ofveiddir samanborið við heimsmeðaltalið sem er 25%. Einn höfundanna, David Symes sem starfar við Hull háskóla á Bretlandi, segir að síðasta aldarfjórðung hafi söguleg hnignum átt sér stað í evrópskum sjávarútvegi og hann kennir getuleysi stjórnmála- og embættismanna til að standast þrýsting sérhagsmunahópa. Mike Sissenwine, fyrrum forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, bendir jafnframt á að önnur þróuð ríki hafi náð mun betri árangri við að vernda fiskistofna og tryggja viðunandi afkomu sjávarútvegsins. Hann bendir á að meðalhagnaður fiskveiðiflota ESB sé 6,5% á meðan hann sé 40% á Nýja Sjálandi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram sú skoðun hans að erfitt sé að ímynda sér að það gangi upp að miðstýringarvaldið í Brussel geti eitt farið með ákvörðunartökuvald fyrir jafn ósamstæðan geira og sjávarútveg allra aðildarríkja ESB.
Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Jose Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórn sambandsins, hefur viðrað hugmyndir um að vald verði fært til einhverskonar svæðaráða og einstaka ríkisstjórna jafnframt því sem hann vill efla eftirlit með fiskveiðum.
Fram kemur í frétt Financial Times að Fokian Fotiadis, sem er æðsti embættismaður fiskveiða innan sambandsins, hafi sent starfsfólki sínu skýrsluna í tölvupósti þar sem fram kom bann við að leka efni hennar út, en skýrslan mun verða grundvöllur að áðurnefndri endurskoðun á fiskveiðistefnu sambandsins.
Heimildir:
Sameiginleg fiskveiðastefna ESB fær falleinkunn (Viðskiptablaðið 28/09/07)
Report tears into Brussels fishing policy (Financial Times 26/09/07)
Hjörtur J. Guðmundsson, 28.4.2008 kl. 20:26
Ég er svo hjartanlega sammála hverju orði, sem þú hefur sagt um ESB fyrr og síðar, Ragnar. Þetta verður alltaf þverpólitískt mál hér á Íslandi, sem klýfur alla flokka í tvær fylkingar, með og á móti ESB-aðild. Sem dóttir fyrsta formanns Sjómannasambands Íslands er ég mjög í móti ESB-aðild, einmitt út af fiskveiðilögsögunni og fyndist það hið mesta glapræði að fórna því fyrir eitthvað annað, sem fólki kann að þykja betra, en gæti svo ekkert verið til hagsbóta heldur, þegar til á að taka. Þegar talað er um ESB, þá dettur mér sem fræðimanni á sagnfræðisviði alltaf í hug einveldið, og finnst hægt að leggja það tvennt að jöfnu. Við höfum öll lesið um þann tíma í Íslandssögunni. Erum við viss um, að við viljum endurtaka þann tíma? Ég er ekki viss um það. Landsmenn fengu alveg nóg af yfirgangi danska kóngsins á einveldistímunum. Í stað kóngsins kemur skrifræðið í Brüssel. Ég sé lítinn mun þar á, og tel ekki, að við eigum nokkurt einasta erindi inn í þetta bákn, eins og það er. Þó að ég tilheyri þeim flokki, sem er hvað æstastur í ESB-aðild, þá kæri ég mig ekkert um, að Ísland fari þar inn, og glati þar með sjálfstæði sínu og yfirráðarétti yfir fiskimiðunum og eigin málum, og einveldistímarnir í Íslandssögunni gangi aftur með breyttum formerkjum. Ég segi NEI við slíku, og vona, að ég þurfi ekki að lifa þann tíma, að Ísland fari inn í ESB, og svo í þokkabót bara út af lélegum gjaldmiðli, sem við getum sjálfum okkur um kennt, að svo sé komið fyrir, sem komið er með því að halda verðbólgudraugnum vel á lífi. Okkur væri nær að taka betur til í okkar fjármálaranni heldur en að stefna inn í þetta bákn í Brüssel, held ég. Það væri vitið okkar meira.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir. (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.