Örlagaríkt eista

Loksins, loksins hefur það komist á hreint,

að Hitler kallinn var bara með eitt lítið eista.

Víst koma tíðindi þessi sorglega seint,

en samt er ágætt að fá nú loks gátuna leysta.

                          Ragnar Arnalds

 

 


mbl.is Hitler var með eitt eista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynt að lauma ófriðareldi í aðgerðapakka ríkisstjórnar

Það vekur furðu að á ögurstundu þegar forsætisráðherra reynir að skapa samstöðu um skyndiaðgerðir til að afstýra frekari bankakreppu hér á landi hefur framkvæmdastjóri ASÍ reynt manna ákafast að smygla ESB-aðild inn í aðgerðapakkann og efna þannig til ófriðar um óskylt mál sem kljúfa myndi alla flokka. Við þurfum samstöðu en ekki sundrungu á þessum seinustu og verstu tímum.

            Ákvörðun um ESB-aðild kæmi að engu gagni í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Enn síður þurfum við á því að halda að krónan sé hrópuð niður meira en orðið er þótt hún hafi fallið mikið í því gerningaveðri sem ríkir þessar vikurnar. Það er sannarlega ekkert einsdæmi að gengi myntar viðkomandi lands falli óvænt og verulega þegar ríki lendir í erfiðleikum. Ekki væru margar myntir eftir í heiminum ef allar þær myntir sem lent hafa í miklu gengisfalli hefðu óðara verið afskrifaðar sem ónýtar.

            Þeir sem vilja taka upp evru verða líka að skilja að af hálfu ESB er það ófrávíkjanlegt skilyrði til upptöku evrunnar að sú mynt sem fyrir er í landinu sé í góðu jafnvægi. Verðbólga þarf um nokkurt skeið að hafa verið með því lægsta sem þekkist í ESB eða innan við 1,5% meiri en í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst og sams konar regla gildir um vaxtastigið. Þessum skilyrðum hefur verið framfylgt út í æsar gagnvart nýjum aðildarríkjum og þess vegna eru aðeins 15 aðildarríki af 27 með evru. Ef menn vilja skipta um gjaldmiðil á næstu árum þá væri evran að þessu leyti óheppilegasta myntin sem völ væri á fyrir Íslendinga.

            Það er því sama hvort við viljum ganga í ESB eða erum andvíg því: meginverkefni okkar allra á næstu árum er að skapa stöðugleika og endurheimta traust á íslensku krónunni. Það er varla unnt að hugsa sér neitt heimskulegra en að tilkynna heiminum á þessari stundu að við höfum gefist upp á krónunni og ætlum að taka upp evru eftir 5-10 ár. Því að auðvitað myndi það taka minnst 5 ár, jafnvel 10 – 15 ár, að taka upp evru, jafnvel þótt það væri ákveðið þegar í dag.

            Flest skilyrðin til upptöku evru höfum við aldrei eða sárasjaldan uppfyllt og við höfum aldrei uppfyllt öll skilyrðin samtímis. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum átt erfiðara með það en aðrar þjóðir að halda niðri verðbólgu. Þessu veldur sá feiknakraftur og athafnasemi sem löngum hefur einkennt íslenskt efnahagslíf með stöðugri hættu á ofþenslu. Til að halda þenslunni og verðbólgunni niðri höfum því neyðst til að vera með háa vexti. Ef við settum vextina niður á þann botn sem dýpstur er í ESB, eins og annað skilyrðið fyrir upptöku evru kveður á um, þá ryki verðbólgan snarlega langt upp fyrir verðbólgumörkin sem okkur yrðu sett. Af þessar ástæðu yrði feikilega erfitt fyrir Íslendinga að uppfylla bæði þessi stífu skilyrði samtímis.

          Líklega væri eina ráðið til að svo geti orðið að skapa hér svipað ástand í atvinnumálum og lengi hefur ríkt innan ESB, þ.e. stórfellt atvinnuleysi í langan tíma. Er það ástandið sem framkvæmdastjóri ASÍ er að heimta að kallað verði yfir landsmenn?

                                                                    Grein Ragnars Arnalds í Morgunblaðinu 6. okt. 2008


Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?

Margir trúa því að við Íslendingar komumst ekki undan ESB-aðild vegna þess hve fljótandi gengi krónunnar sveiflast mikið á ólgusjó erlendra markaða. En vilja menn fórna 200 mílna landhelgi og margskonar fullveldisréttindum til að fá stöðugra gengi? Ég er sannfærður um að landsmenn samþykkja aldrei í þjóðaratkvæði að erlend ríki fái úrslitavald yfir fiskimiðum landsmanna, vald sem í eðli sínu er ígildi eignarréttar og nær yfir hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft.

Mikið var gert úr nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins og hún túlkuð sem stuðningur landsmanna við ESB-aðild þótt spurningin væri bæði loðin og leiðandi. Í september s.l. var niðurstaðan hjá sama blaði hins vegar þveröfug: 56% voru andvíg því að skipta út krónu fyrir evru og 51 % andvíg aðild. Skoðanakannanir um ESB-aðild sveiflast upp og niður og í þetta sinn hafði gengisfall krónunnar mikil áhrif. Alþjóðlegir markaðir verðfelldu krónuna vegna vandræða stóru íslensku bankanna sem erlendir keppinautar gerðu að skotmarki og stimpluðu sem risa á brauðfótum vegna þess hve mjög þeir hafa þanist út á fáum árum.

En bankarnir rétta brátt úr kútnum og gengi krónunnar nær aftur jafnvægi. Þótt of lágt gengi valdi erfiðleikum er alltof hátt gengi hálfu verra; það veldur stöðnun og atvinnuleysi þegar til lengri tíma er litið. Við getum hrósað happi meðan efnahagslífið er ekki gikkfast í ofurháu gengi evrunnar sem einmitt nú er stóra vandamálið á evrusvæðinu.

Hátt vaxtastig á Íslandi er önnur helsta röksemdin fyrir ESB-aðild. Háu vextirnir eru helsta tæki kerfisins í baráttu við ofþenslu og verðbólguháska. Sumir ESB-sinnar snúa reyndar vaxtaumræðunni á hvolf og fullyrða að sjálfstæð peningastefna sé einskis virði því að háir stýrivextir hafi engin áhrif. Það eru miklar ýkjur enda væri þá ekki kvartað svo mjög yfir háu vaxtastigi. Og sannarlega væri gott að vera laus við háu vextina. En þá þarf að finna önnur úrræði í stað stýrivaxta Seðlabankans og skapa stöðugleika með því að hafa hemil á stórframkvæmdum sem setja allt á annan endann. Hitt er aftur á móti hlægileg ögrun við heilbrigða skynsemi að nefna evruna sem bjargvætt í glímunni við verðbólgu. Augljóst er að á undanförnu þensluskeiði hefðu evruvextir verkað hér á landi sem olía á verðbólgueldinn. Engir hefðu komið jafn illa út úr því og launafólk. Sambland af alltof háu gengi evrunnar og lágum vöxtum kann að virðast girnilegur réttur við fyrstu sýn, en er í eðli sínu skaðlegasta mixtúra sem unnt væri að gefa efnahagslífi okkar eins og sakir standa og hefði valdið óðaverðbólgu en síðar stórfelldu atvinnuleysi þegar efnahagslífið hefði fest sig í sjálfheldunni.

Spurningin er þá: eru landsmenn orðnir svo þreyttir á fljótandi gengi krónunnar og meðfylgjandi gengisflökti að ekki verði hjá því komist að breyta til?  Ef svo er mætti að sjálfsögðu taka aftur upp fast gengi sem sveiflast innan vissra marka miðað við meðalgengi nokkurra helstu mynta, svo sem evru, dollars og punds eins og var fyrir fáum árum. En hitt að fórna yfirráðum yfir fiskimiðunum til að geta tekið upp evru er að fara úr öskunni í eldinn. Þá væri þó skárra að taka upp gjaldmiðil ríkis sem ekki heimtar 200 mílna landhelgina í kaupbæti.  

En talsmenn ESB-aðildar skauta alltaf létt framhjá landhelgismálinu og fullyrða blákalt að Íslendingar fengju undanþágur í sjávarútvegsmálum. Þeir benda einkum á undanþágu sem Danir fengu varðandi sumarbústaði útlendinga á vesturströnd Jótlands! Er þar ekki nokkuð ólíku saman að jafna? Vissulega finnast dæmi um undanþágur sem aðildarríki hafa fengið frá meginreglum ESB. En æðstu ráðamenn ESB hafa margsagt í viðræðum við íslensk stjórnvöld að Íslendingar geti aldrei undanþegið 200 mílna landhelgi sína; það myndi skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir, t.d. Breta sem haft hafa uppi sömu kröfu.

Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum. En menn verða að átta sig á að innganga í ESB er langtum óhagstæðari fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í engu Evrópuríki vegur útflutningur sjávarafurða eins þungt og hér á landi eða um 38% (2007) en um leið er fiskurinn eina auðlindin sem ESB hefur beinlínis lagt undir sína stjórn. Á árlegum ráðherrafundi ESB eru ákvarðanir teknar um nýtingu sameiginlegra fiskimiða og er sá fundur oft nefndur "nótt hinna löngu hnífa". Þar hefðu okkar menn 3 atkvæði af um 350.

Vel má vera að ráðherrar annarra ríkja sýni Íslendingum sanngirni og taki tillit til þess að við höfum setið einir að fiskimiðum okkar undanfarna áratugi. En eftir að við hefðum framselt þeim réttinn til að ráða yfir fiskimiðunum hefðum við enga tryggingu fyrir því að við yrðum ekki órétti beittir. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á stjórnarskrársáttmála ESB og þar er endanlega geirneglt að ESB hafi úrslitavald (exclusive competence) á sviði nýtingar sjávarauðlinda. Ljóst er að þessari meginreglu yrði ekki haggað í aðildarviðræðum.


Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB

Sagt hefur verið að þjóðir sem ánetjast samrunaferli ESB lendi strax í þeim vítahring að þær eru látnar kjósa aftur og aftur í þjóðaratkvæðagreiðslum ef niðurstöðurnar falla ekki að áformum forvígismanna ESB. Þetta hafa Norðmenn, Danir og Írar margreynt. En ef niðurstaðan er jákvæð er aldrei kosið aftur. Frakkar og Hollendingar felldu fyrirhugaða stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði og vitað var með vissu að sama myndi gerast í Bretlandi. Lausn leiðtoga ESB liggur nú fyrir: þeir hafa komið sér saman um nýjan samning með efnislega hliðstæðu innihaldi en í nýjum umbúðum og undir nýju nafni. Í stað þess að láta kjósa upp á nýtt, eins og gamla aðferðin var, þá ætla þeir af ótta við kjósendur að hundsa álit almennings með öllu og sleppa þjóðaratkvæði um nýja samninginn nema hjá því verði alls ekki komist. Stóraukið fullveldisafsal aðildarríkja ESB verður þvingað fram án þess að leita eftir vilja íbúanna.Nú kynni einhver lesandinn að halda að hér sé ekki rétt frá skýrt og nýi samningurinn sé einfaldlega annars eðlis. Ég vil því vitna til ummæla Valery Giscard d’Estaing, fyrrv. forseta Frakka, orðum mínum til staðfestingar, en hann hafði yfirumsjón með gerð stjórnarskrárdraganna. Hann sagði blátt áfram á Evrópuþinginu 17. júlí s.l: “Innihaldið er það sama og í stjórnarskránni sem hafnað var, en forminu hefur verið breytt úr læsilegri stjórnarskrá og yfir í tvö óskiljanleg drög að milliríkjasamningum.“Nú um helgina lék mér forvitni á að fá að vita hvort ákvæðið um úrslitayfirráð ESB yfir lífríki sjávar við strendur aðildarríkja með sameiginlegri yfirstjórn fiskveiðimála væri inni í Lissabon-samningnum. Ekki reyndist auðsótt að fá botn í það mál. Í stað samhangandi texta eru nú settir fram 14 milliríkjasamningar og texti þeirra er ekki samhangandi heldur í formi orðalagsbreytinga á samningum sem áður hafa verið samþykktir. Því þarf að bera saman mörg skjöl til að botn fáist í samhengið.Textinn um úrslitayfirráð ESB yfir 200 mílna lögsögu aðildarríkjanna var áður að finna í gr. I.13 í stjórnarskránni en er nú orðréttur eins og hann var þar í einum af nýju samningnum undir fyrirsögninni B. Specific Amendments 19) Title I Article 3 (d): "The Union shall have exclusive competence to establish competition rules within the internal market, and in the following areas . . . the conservation of marine biological resources under the common fisheries policy. " Þetta er mikilvægt fyrir Íslendinga að vita. Vafalaust munu þeir seint sætta sig við að úrslitaákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna innan 200 mílna lögsögunnar verði teknar í ráherraráði ESB á árlegum næturfundum sem meðal innanbúðarmanna þar á bæ nefnast: “nótt hinna löngu hnífa” en þar myndi Ísland hafa innan við 1 % atkvæða.En hver er svo skýringin á því að leiðtogar ESB hafa sent frá sér ígildi stjórnarskrár í formi sundurslitins samsafns af lagatextum sem erfitt er að átta sig á. Skýringin er einföld þótt hún hljómi ótrúlega. Við skulum láta fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, núverandi innanríkisráðherra, gefa okkur skýringuna. Hann sagði 16. júlí s.l. samkvæmt euobserver.com að stjórnarskráin hefði vísvitandi verið gerð ólæsileg fyrir borgarana til þess beinlínis að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum: “Þeir (ESB-leiðtogar) ákváðu að skjalið ætti að vera ólæsilegt. Ef það er ólæsilegt er það ekki í eðli sínu stjórnarskrá, þetta var viðhorfið. Ef mögulegt hefði verið að skilja textann við fyrstu sýn hefði kannski skapast grundvöllur fyrir þjóðaratkvæði, því að það hefði þýtt, að þar væri eitthvað nýtt að finna.” (Ræða hjá “Center for European Reform” í Lundúnum 12. júlí s.l. Heimild: euobserver.com 16. júlí 2007.)Þetta er óneitanlega makalaus vitnisburður um það virðingarleysi fyrir lýðræðinu sem viðgengst í stofnunum ESB.Breytingarnar frá núverandi skipulagi sem felast í Lissabon-samningnum eru tvímælalaust mjög mikilvægar og fela í sér stórt skref í átt til formlegs stórríkis. ESB fær nú bæði forseta sem ekki gegnir öðru starfi og utanríkisráðherra þótt sá síðarnefndi verði ekki nefndur því nafni eins og stjórnarskráin gerði ráð fyrir heldur “High Representative”. Í stjórnarskránni voru tiltekin fjögur sígild ríkistákn: fáni, mynt, þjóðsöngur og þjóðhátíðardagur en þessi ákvæði eru ekki í nýja samningnum. Þetta eru einmitt ágæt dæmi um feluleikinn og þá sýndarbreytingu sem gerð var á stjórnarskrárdrögunum því að fáninn, myntin, þjóðsöngurinn og þjóðhátíðardagurinn eru þegar til í reynd og verða það áfram. Vafalaust er mikilvægasta breytingin frá núgildandi skipulagi fólgin í því að neitunarvald aðildarríkja er afnumið á rúmlega 60 sviðum og í staðinn koma meirihluta ákvarðanir þar sem krafist er að 55% aðildarríkjanna hafi greitt lagafrumvarpi atkvæði og þeir sem veiti samþykki sitt hafi 65% af íbúum ESB að baki sér. Þetta var nákvæmlega eins í stjórnarskrárdrögunum. Tæpast þarf að taka það fram að þessi tilhögun eykur mjög áhrifamátt stóru ríkjanna en er að sama skapi óhagstæð fyrir smáríkin. Í ríkjabandalögum er oftast reynt að tryggja að stór ríki vaði ekki algjörlega yfir smáríki með sérstökum stofnunum til hliðar við meginþingið. Sem dæmi má nefna öldungadeild bandaríska þingsins þar sem hvert fylki fær tvo þingmenn óháð fólksfjölda. Svipað gildir í sambandsráði Þýskalands. Hins vegar er ekkert slíkt að finna í stofnanakerfi ESB. Þingmannafjöldi á ESB-þinginu verður 750 en Ísland myndi fá 6 þingmenn við aðild og eru það 0,8% áhrif og í ráðherraráðinu fengju Íslendingar 3 atkvæði af 348 eða um 0,86%.Atkvæðavægi smáríkja innan ESB hefur jafnt og þétt farið minnkandi. Sem dæmi má nefna að Þjóðverjar höfðu þrefalt fleiri atkvæði en Danir í ráðherraráðinu, valdamestu stofnun ESB, þegar Danir gengu í bandalagið (þ.e. í EBE fyrir rúmum þremur áratugum). En þeir fá nú fimmtán sinnum fleiri atkvæði en Danir. Mannfjöldi Þýskalands óx um þriðjung við sameiningu þýsku ríkjanna en það skýrir ekki nema að litlu leyti þá breytingu sem orðið hefur á atkvæðavægi þessara tveggja ríkja. Þróunin hefur ótvírætt verið smáríkjum óhagstæð á liðnum áratugum og Lissabons-samningurinn opnar nýjar leiðir fyrir stóru ríkin til að auka áhrif sín enn frekar á kostnað þeirra smærri.

Sjávarútvegsreglur ESB eru óásættanlegar

Því er mjög haldið á lofti af áköfustu áhugamönnum um ESB-aðild að óhætt sé fyrir okkur Íslendinga að framselja yfirráðin yfir fiskimiðum okkar til Evrópusambandsins vegna þess að því megi treysta að ráðherraráð ESB myndi afhenda okkur alla veiðikvóta við strendur landsins til baka í samræmi við reglur ESB. Þetta sé því ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir tala minna um það að ráðherraráðið getur breytt reglum sínum hvenær sem er og fullljóst er að engin trygging fengist fyrir því í hugsanlegum aðildarsamningi Íslands að Evrópusambandið myndi stjórna sjávarútvegsmálum Íslendinga með viðunandi hætti á komandi árum.Þetta er eitt af mörgu sem kemur upp í hugann í tilefni af opnum umræðufundi sem haldinn verður í Norræna húsinu á morgun, fimmtudaginn 15. mars kl 12.10 til 13.30, en þar munu þeir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur, og Kolbeinn Árnason, lögmaður, ræða um íslenskan sjávarútveg og Evrópusambandið. Báðir eru þeir gagnkunnugir þessum málum en Kolbeinn er fyrrverandi skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins og var lengi fulltrúi þess hjá fastanefnd Íslands við ESB.Svonefnd Evrópunefnd sem ríkisstjórnin skipaði eftir tilnefningu þingflokkanna hefur undanfarin þrjú ár rannsakað tengsl Íslands við ESB og skilaði í gær frá sér ítarlegri skýrslu. Eins og fram kemur í skýrslunni hélt nefndin fund nú í vetur með háttsettum embættismönnum ESB á sviði sjávarútvegsmála. Þar kom það skýrt fram að engar líkur væru á að samist gæti um það milli Íslands og ESB að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland yrði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda gæti slíkt ekki samrýmst svonefndri Sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB (CFP) og ætti sér engin fordæmi nema hvað varðaði afmörkuð fiskverndarhólf.   Meginreglan er sú að í fiskveiðilögsögu ESB eiga öll aðildarríkin veiðirétt. Í framkvæmdinni er þó farið eftir samþykktum ráðherraráðsins um svokallaðan “hlutfallslegan stöðugleika” og samkvæmt þeirri reglu er hliðsjón höfð af sögulegri veiðireynslu.  Fyrrnefndir sendimenn framkvæmdastjórnar ESB fullyrtu að við aðild Íslands myndu veiðiheimildir að mestu falla í hlut Íslendinga miðað við þá reglu. En jafnframt staðfestu þeir að reglan um “hlutfallslegan stöðugleika”  byggist eingöngu á samþykktum ráðherraráðsins og ekkert er því til fyrirstöðu að reglunni verði breytt ef tilskilinn meirihluti yrði fyrir hendi.Þessar staðreyndir eru kjarnapunkturinn sem úrslitum hlýtur að ráða um afstöðu Íslendinga til fiskveiðistefnu ESB. Íslenska efnahagslögsagan er 758.000 ferkílómetrar að stærð eða ríflega sjö sinnum stærri en landið sjálft. Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í nefndinni létu bóka þá skoðun sína í niðurstöðum nefndarinnar “að Íslendingar geti ekki framselt yfirráðin yfir þeim miklu auðæfum sem þar er að finna til Evrópusambandsins, án þess að hafa nokkra vissu fyrir hvaða reglum verði fylgt í sjávarútvegsmálum á komandi áratugum. Engin trygging er fyrir því, að Íslendingar geti varið hagsmuna sína í þessu efni til frambúar sem aðilar að Evrópusambandinu, þar sem ráðherraráðið tekur úrslitaákvarðanir um hámarksafla og hvaða tegundir er leyfilegt að veiða svo og um veiðiaðferðir og veiðarfæri. Í ráðherraráðinu myndu Íslendingar aðeins ráða yfir 3 atkvæðum af 348 miðað við núverandi stærð ESB.”Í bókun fulltrúa Frjálslynda flokksins kemur fram hliðstæð afstaða. Mikill meirihluti nefndarinnar var því þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt væri fyrir Íslendinga að standa áfram utan Evrópusambandsins eins og málum er nú háttað.

Í bókun fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins var einnig á það bent að “afli Íslendinga úr svonefndum flökkustofnum sem veiðast bæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar, þ.e. síld, loðna, kolmunni, rækja og karfi, er háður samningum við önnur nálæg ríki svo og við Evrópusambandið. Við aðild að ESB fellur niður réttur aðildarríkja til að gera sjálfstæða fiskveiðisamninga við önnur ríki og fer framkvæmdastjórn ESB með samningsumboð fyrir þeirra hönd. Íslendingar eiga oft í samningum við ESB um þessi veiðiréttindi og hefur oft verið tekist svo hart á um þessa hagsmuni, að viðræður hafa staðið yfir árum saman, sbr. nýlegar samningaviðræður um kolmunna. Ef til aðildar kæmi sæti Evrópusambandið hins vegar báðum megin við samningsborðið þegar tekist væri á um þessi mikilvægu veiðiréttindi. Fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi er það frágangssök og með öllu ógerlegt að sætta sig við þá aðstöðu enda hefur verðmæti þess afla sem fæst úr flökkustofnum verið nærri þriðjungur af heildaraflaverðmæti landsmanna mörg undanfarin ár.”

(Grein í Morgunblaðinu 14. mars 2007)

Evruhlátur breyttist í dollaraglott

Hann gengur á með éljum í aðdraganda kosninga. Í því seinasta var ákaft fullyrt að fyrirtækin hefðu kveðið upp dauðadóm yfir krónunni og gerðu upp reikninga sína í evrum. Nú hefur því éli slotað. Í ljós kom að flest þessi fyrirtæki völdu dollarann!Áköfustu ESB-sinnar efndu til upphlaups sem stóð í nokkrar vikur og gekk út á að fyrirtækin í landinu væru að “yfirgefa krónuna og færðu ársreikninga sína í evrum”. Yfirlýsingar formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Ingibjargar Sólrúnar, í miðju áróðursélinu vöktu hvað mesta athygli, en hún hélt því fram hvað eftir annað að fyrirtækin væru með þessu að “flýja krónuna” enda væri hún “handónýt”! Við yrðum að taka upp evru. Svo var ákafinn mikill í þessu máli að helst leit út fyrir að reynt væri að hrópa krónuna niður. Markaðurinn var gripinn fáti og gengið féll á nokkrum dögum um 3%. Til viðbótar komu fréttir um að Kaupþing væri “að flytja eigið fé sitt yfir í evrur”.  Nú hafa málin skýrst. Gengið hefur hækkað aftur um ríflega þessi 3% sem það féll og er nú hærra en það var á föstudag fyrir viku. Í ljós kom að fyrirtækin sem fengið hafa leyfi til að gera upp ársreikninga sína í erlendri mynt eru 167 og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, þ.e. 98 fyrirtæki, valdi ekki evru heldur Bandaríkjadal sem uppgjörsmynt. Innan við þriðjungur eða 51 fyrirtæki valdi evru, afgangurinn valdi pund, danskar, sænskar og norskar krónur og japönsk jen. Þessi fyrirtæki hafa þá sérstöðu að meginstarfsemi þeirra fer fram erlendis eða þau eiga erlend dótturfyrirtæki og/eða hafa verulegan hluta tekna sinna í erlendri mynt. Þessu fylgir augljóst hagræði fyrir þá sem starfa fyrst og fremst í erlendu markaðsumhverfi. Að sjálfsögðu breytir þetta hins vegar engu hvað krónuna varðar. Fyrirtæki og einstaklingar geta í dag tekið lán í erlendri mynt. Form ársreiknings breytir heldur engu um hvar fyrirtækin eru skattlögð. Þetta upphlaup reyndist því vera stormur í vatnsglasi. Síst verður dregin sú ályktun af þessum tíðindum að evran sé augljós arftaki krónunnar í augum ráðamanna íslenskra fyrirtækja. Sama gildir um þá æsifrétt að Kaupþing hafi um áramótin flutt “eigið fé sitt” yfir í evrur og sé að flýja land. Sú fullyrðing var á því byggð að í desember s.l. hækkaði nettógjaldeyrisstaða bankanna um 81 milljarð kr. Var sagt að þar ætti Kaupþing stærstan hlut. Kaupþing benti hins vegar á að bankarnir væru stöðugt að stækka við sig erlendis og því væri þörf á að stærri hluti af efnahagsreikningi þeirra væri í erlendri mynt. Þetta er fullgóð skýring. Þegar á það er einnig litið að nettógjaldeyriseign bankanna nú við áramótin er samtals nokkurn veginn eins og hún var í marsmánuði s.l. má sjá að það er fásinna að halda því fram að skyndileg ákvörðun hafi verið tekin í bönkunum um “að flýja krónuna”. Bankarnir standa í alls konar braski og í gær keypti Kaupþing tískuverslun í London fyrir rúma sex milljarða króna, væntanlega til að selja hana aftur! Er þá ekki sennilegt að bankarnir kaupi og selji gjaldeyri til að hagnast á hugsanlegum gengisbreytingum? Í dag var svo upplýst að Bandaríkjamenn hefðu keypt skuldabréf í íslenskum krónum fyrir 40 milljarða. Þeir hafa greinilega meiri trú á krónunni okkar en Ingibjörg Sólrún.     

Skautað létt yfir staðreyndir

Margir þeir sem nú heimta evru í stað krónu gera sér ekki grein fyrir að Íslendingar uppfylla ekki skilyrðin fyrir upptöku evru og munu ekki gera það í fyrirsjáanlegri framtíð. Fyrir svo utan hitt að evran myndi verka eins og olía á verðbólgueldinn. Til þess að taka upp evru í tengslum við aðild að ESB þurfa ríki að uppfylla mörg skilyrði. Sum þeirra uppfyllir íslenskt efnahagslíf. En eitt þeirra er og verður torsóttast fyrir Íslendinga; þ. e. að um nokkurt skeið sé verðbólga hér ekki meiri en 1.5% yfir meðaltali verðbólgu í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst. Sú tala var 1.3% árið 2005. Einnig verður torsótt fyrir Ísland uppfylla það skilyrði að meðalvextir hér séu innan við 2% hærri en meðalvextir þeirra ríkja ESB þar sem þeir eru lægstir.  Hvers vegna eru þessi markmið svo torsótt fyrir Íslendinga? Einfaldlega vegna þess að hér hefur verið allt annað og gjörólíkt efnahagsástand en í ríkjum ESB, meiri uppgangur og framkvæmdagleði og miklu meiri hagvöxtur. Atvinnuleysi er hér aðeins brot af því sem algengast er í ESB. Seinustu þrjú árin hefur íslenska hagkerfið ofhitnað og Seðlabankinn hefur neyðst til að setja stýrivexti upp í rúm 14% en það eru fjórfaldir stýrivextir evrusvæðisins. Hættan á mikilli verðbólgu er áfram yfirvofandi og útlit fyrir að svo verði næstu árin. Vaxtastig evrusvæðisins myndi því nokkuð örugglega verka eins og olía á eldinn, verðbólgan myndi rjúka enn frekar upp á við og hagstjórn verða illviðráðanleg. Ákafir fylgismenn aðildar að ESB skauta létt yfir þessar staðreyndir. En það er tilgangslaust að loka augunum fyrir því að upptaka evru er langt frá því að vera nokkur patentlausn fyrir Íslendinga. Hin leiðin sem felst í því að taka upp evru einhliða er fræðilega hugsanleg. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af fyrrnefndum skilyrðum ESB. En hún er bæði dýr, kostar hátt á annan tug milljarða í gjaldeyri, eins og ég benti á hér í bloggi mínu 13. desember s.l. og hefur sömu ókosti hvað varðar hættu af verðbólgu. 

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. desember s.l. benti ég einmitt á hversu yfirborðlega væri fjallað í fjölmiðlum þessar vikurnar um hlut krónunnar í efnahagsvanda Íslendinga. Krónan er gerð að blóraböggli fyrir því sem illa gengur í efnahagsmálum þótt augljóst sé að hún er ekki sökudólgurinn. Greinin var svohljóðandi:

Það er tilgangslaust að skamma hitamælinn             Hún var undarleg þulan sem Hjálmar Sveinsson las yfir hlustendum á Rás eitt s.l. laugardagsmorgun. Það var íslenska krónan sem Hjálmar beindi spjótum sínum að. Vafalaust hefur fleirum en mér blöskrað að maður sem hefur dagskrárgerð að atvinnu skuli leyfa sér að fjalla um margþætt og umdeilt viðfangsefni á svo yfirborðslegan hátt, rétt eins og aðeins sé á því ein hlið. Skoðum því aðra hlið á þeim peningi.            Krónan hefur vissulega verið í sviðsljósinu seinustu mánuðina vegna þess að gengi hennar ofreis á árinu 2005 en seig svo aftur í vor og sumar. Nú er gengið aftur komið í eðlilegt horf að flestra áliti. Sveiflurnar og óstöðugleikinn sem þeim hefur fylgt valda þó vissulega óþægindum og gremju. En krónan sjálf á þar litla sök. Ástæða gengissveiflunnar var ofþensla í hagkerfinu vegna mestu stóriðjuframkvæmda í Íslandssögunni og kraftmikil innkoma bankanna á íbúðalánamarkað. Gengi krónunnar er hitamælirinn sem sveiflast eftir aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Það er út í bláinn að skammast út í hitamælinn. Vandamál af þessu tagi hverfa ekki þótt hitamælirinn hverfi. En gengisaðlögun í samræmi við taktinn í íslensku efnahagslífi er mikils virði.            Svo var að heyra að áróðursþula Hjálmars á Rás eitt byggði á grein sem birtist í Viðskiptablaðinu 13. des. s.l. undir fyrirsögninni Krónan í kreppu – er markaðurinn að henda henni út? Þar er því haldið fram í inngangi að íslenski markaðurinn noti erlend lán í sívaxandi mæli. En þegar greinin er lesin kemur á daginn að fyrirsögn blaðsins er eins konar “platfrétt eða ekki frétt”. Því að blaðið leitar frétta hjá forstöðumönnum greiningardeilda KB-banka og Landsbanka sem svara því til að markaðshlutdeild krónunnar í lána og bankakerfinu hafi ekkert breyst frá því sem verið hefur nú um nokkurt skeið. Að sjálfsögðu eru lán í erlendri mynt á Íslandi ekkert nýmæli. Og hitt eru heldur engin tíðindi að íslensk fyrirtæki sem sum eru að meiri hluta með starfsemi sína erlendis geri upp reikninga sína í erlendri mynt. Það er formsatriði sem engu máli skiptir og full rök eru fyrir.            Enginn skyldi ímynda sér að íslenska krónan sé eina myntin sem sveiflast. Dollarinn hefur fallið heilmikið á þessu ári eða um 10-12% gagnvart pundi og evru. Og evran féll um nærri 30% á rúmi ári snemma á þessum áratug án þess að nokkrum dytti í hug að halda því fram að þessi draumadís ESB-sinna sé “handónýt” eins og nú er í tísku að segja um krónuna.            Þeir sem harðastan áróður reka gegn krónunni mættu líka hafa í huga að aldrei í sögunni hafa útlendir fjárfestar borið svo mikið traust til krónunnar sem nú á þessu ári því að þeir hafa fest fé sitt í skuldabréfum sem erlend fyrirtæki hafa gefið út í íslenskum krónum og nema nú um 300 milljörðum króna (ýmist nefnd krónubréf eða jöklabréf). Enda þótt krónan félli í sumar létu þessir erlendu fjárfestar eins og ekkert væri og lítil ókyrrð var merkjanleg á þeim markaði. Þetta bendir nú ekki beinlínis til að krónan sé jafn “handónýt” og sumir vilja vera láta.            Í miðju moldviðrinu sem gengið hefur yfir íslensku krónuna kom hingað maður sem nefndur hefur verið “guðfaðir evrunnar”, Róbert A. Mundell. Hann lét þess getið í viðtali við Morgunblaðið, nokkrum dögum eftir að hann var gerður að heiðursdoktor í hagfræði við Háskóla Íslands, að hann teldi “ekki ráðlegt fyrir Íslendinga að taka upp evru heldur eigi að notast við núverandi fyrirkomulag og sjá hvað setur.” (Mbl. 26/10/06) Ekki sáu Hjálmar Sveinsson, dagskrárgerðarmaður, eða greinarhöfundur Viðskiptablaðsins ástæðu til að geta þessa í umfjöllun sinni um krónuna og var þó þar á ferð sá sem ætti að vita hvað hann syngur.

Viðræður við ESB í hnút og aðeins 10 dagar til stefnu

Í Mbl. í dag er staðfest að ESB er að reyna að þvinga Íslendinga til að greiða háar fjárhæðir þvert á ákvæði EES eins og ég benti á í bloggi mínu, 14. des s.l: Ný fjárkúgun í uppsiglingu. Sumum fannst þá of sterkt til orða tekið. En það sýnist mér ekki. Viðskiptasamningar Íslands og Noregs við Rúmeníu og Búlgaríu falla niður um áramótin vegna þess að aðildarríki ESB glata samningsrétti sínum við inngöngu í ESB. Viðskiptin sem truflast og falla niður meðan þetta ástand varir eru ekki aðeins til hagsbóta fyrir Ísland og Noreg heldur ekkert síður fyrir Búlgaríu og Rúmeníu. Að öllu eðlilegu ætti því ESB að sjá til þess að viðskiptakjör milli þessara fjögurra ríkja héldust óbreytt og ótrufluð eins og þau hafa verið undanfarin ár án nýrra fjárframlaga. En forystumenn ESB sjá þarna færi á að kúga fé út úr Norðmönnum og Íslendingum og nýta sér það óspart.  Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er þess krafist að Íslendingar bæti 150-300 milljónum kr. í púkkið. Íslenska utanríkisráðuneytið mun hafa gefið í skyn að Íslendingar séu til í tuskið ef þeir fái nú loks tollalækkanir á fáeinum útflutningsafurðum sem enn bera toll hjá ESB, svo sem humar, fersk karfaflök og frosin steinbítsflök. Norðmönnum er hins vegar ætlað að hækka greiðslur sínar um 36,5 millj. evra (þ.e. 3.356 millj. ísl. kr.) og því harðneita þeir. “Viðræðurnar eru í hnút”, segir Mbl. og þarf enginn að vera hissa á því. 150-300 millj. kr. viðbótargreiðsla Íslands til ESB er þó ekki nema brot af því sem við ættum að greiða ef við gengjum í ESB og því má segja að í þetta sinn sleppi Íslendingar með skrekkinn. En vinnubrögð ESB í þessu mál þvert á gerða samninga sýna hvernig kaupin gerist á eyrinni á þeim bæ.

Pólitískar njósnir þarf að banna í stjórnarskrá

Í Reykjavíkurbréfi Mbl. í gær segir: “Það er ósköp skiljanlegt að Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra, eigi erfitt með að skilja að sími hans var hleraður. Í augum þeirra, sem óskuðu eftir hlerun á síma hans á þessum árum, var hann einn helsti forystumaður nýrrar kynslóðar, sem barðist gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Og þeir spurðu sig alltaf, hvort hann og skoðanabræður hans myndu grípa til sömu aðgerða og skoðanabræður hans höfðu gert áratug áður. Ekki síst í ljósi þess, að sumir þeirra, sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið 1949, voru samstarfsmenn hans í Friðlýstu landi.” Sú söguskoðun að átökin á Austurvelli 1949 hafi verið byltingartilraun kommúnista eða fyrirfram skipulögð árás er að sjálfsögðu fjarstæða og í engu samræmi við heimildir. En sleppum því; ég var þar ekki nærstaddur enda aðeins tíu ára gamall. Hitt er enn augljósara að tilvísanir í þessi átök munu aldrei duga Morgunblaðinu til að afsaka símahleranir stjórnvalda 14 árum síðar hjá alþingismanni í stjórnarandstöðu árið 1963. Þær duga enn síður til að afsaka símahleranir valdhafa árið 1961 hjá alþingismönnunum, Hannibal Valdimarssyni, þáverandi forseta Alþýðusambandsins, og Lúðvík Jósefssyni, sem þremur árum áður hafði sem sjávarútvegsráðherra haft forystu um útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Báðir þessir menn greiddu að vísu atkvæði gegn aðild Íslands að NATO. En tólf árum síðar var ekki verið að fjalla um herinn eða NATO eða annað það sem Bandaríkjamenn, óumdeildir frumkvöðlar þessara persónunjósna, höfðu áhuga á. Það var verið að ræða um framtíð landhelgismálsins. Valdhafana skorti upplýsingar um hvað væri að gerast í herbúðum stjórnarandstæðinga og þeir fyrirskipuðu víðtækar símahleranir. Stjórnmálamenn létu starfsmenn ríkisins njósna um aðra stjórnmálamenn og virðast hafa talið sér trú um að þau vinnubrögð væru sjálfsagt mál. Því miður reyna pólitískir arftakar þeirra að koma sér hjá því að viðurkenna að svo var ekki. Ég hygg þó að þeir muni fyrr eða síðar játa það. Jafnframt er ég að vona að þverpólitísk samstaða skapist um að tryggja að símahleranir og aðrar persónunjósnir í pólitískum tilgangi verði nú með öllu bannaðar með ákvæði í stjórnarskrá.

Er þörf á að fjölga flokkum?

Fréttir berast af því að aldraðir hyggi á framboð í þingkosningunum í vor til að leggja áherslu á bætt kjör sín. Sama á hugsanlega við um náttúruverndarfólk í uppreisn gegn stóriðjustefnu og landspjöllum af völdum stórvirkjana. Bæði þessi málefni eru þess eðlis að þau hljóta og eiga að verða meðal helstu umræðuefna í komandi kosningabaráttu. En ég efast mjög um að neinum sé greiði gerður með sérframboðum. Eins-máls-framboð hafa sjaldan borið mikinn árangur. Í rauninni er Kvennalistinn eina dæmið um velheppnað framboð af þessu tagi á síðari áratugum enda með breiðari skírskotun. Misheppnað framboð aldraðra eða náttúruverndar­manna geta skaðað málstað þeirra fremur en hitt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband