Dollarísering og evruvæðing

Er unnt að taka upp evru í stað krónu án þess að ganga í ESB? Algengt er að ákafir áhugamenn um aðild að ESB svari þeirri spurningu neitandi vegna þess að þeir vilja virkja þann áhuga sem vaknar á evru sem mynt þegar gengi ísl. krónunnar sveiflast óhóflega. En rétt svar við spurningunni er þvert á móti að Íslendingar gætu innleitt evru í viðskiptum hér á landi í stað krónu án afskipta eða leyfis seðlabanka evrunnar með því einu að kaupa upp þær ísl. krónur sem eru í umferð og nota í því skyni hluta gjaldeyrisvarasjóðsins en stærsti hluti hans er varðveittur í evrum. Til þess þyrfti 13-14 milljarða evra en í gjaldeyrisvarasjóðnum er varðveitt ríflega tvöföld sú upphæð í evrum. Þessi leið hefur lengi blasað við enda hefur hún verið reynd í öðrum löndum, t.d. Panama, og nefnist á máli fræðimanna “dollarísering”.

Fram að þessu hefur þó enginn mælt með því að þessi leið sé valin hér á landi, einfaldlega vegna þess að upptöku evru fylgja margir veigamiklir ókostir, og m.a. þeir að sjálfstæð peningastefna í íslensku hagkerfi hverfur þá úr sögunni. Sú leið sem hér er nefnd er einmitt gerð að umtalsefni í grein Björns Rúnars Guðmundssonar, sérfræðings greiningardeildar Landsbanka Íslands, í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: Myntráð án myntar – leiðin inn í evruna?

Björn Rúnar ræðir reyndar um aðrar leiðir eins og svokallað “myntráð”, svo og um sambland “dollaríseringar” og “myntráðs” en bætir við hugleiðingum um “peningalaust hagkerfi”. Hann bendir á að hlutfall seðla og myntar hér á landi sé langtum lægra en annars staðar þekkist eða aðeins um 2,5% og fari minnkandi en viðurkennir að erfitt verði að skipta algerlega yfir í rafrænar færslur þar sem stór hluti eldra fólks hafi ekki tileinkað sér tæknina.

Björn Rúnar viðurkennir að meginvandinn við það að hverfa frá sjálfstæðri íslenskri mynt sé sú að við glötum þeim “hagræna öryggisventli” sem felst í sjálfstæðri peningastefnu. Sveiflur í íslenska hagkerfinu eru gjörólíkar hagsveiflum á evrusvæðinu. Segja má að megingallinn á grein Björns sé einmitt sá að hann fjallar lítið sem ekkert um það hvernig bregðast ætti við þessum vanda sem þó er augljóslega kjarni málsins.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæður gjaldmiðill er öryggisventill á meðan hagkerfi okkar er svo lítið og mikið um sveiflur eðli málsins samkvæmt, það segirðu réttilega. Það er ástæðan fyrir því að það er aðeins vilji fyrir upptöku evru samhliða inngöngu í ESB.

Brynjar Guðnason (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 14:45

2 Smámynd: Ragnar Arnalds

Öll hagkerfi sveiflast og ekki síður evrusvæðið en íslenska hagkerfið. En gallinn er bara sá að þegar sveiflan er í toppi hjá okkur þá er hún í botni hjá ESB eins og einmitt núna. Hagsveiflur okkar og þeirra eru mjög ósamhverfar. Þess vegna hentar evran svo illa fyrir okkur. Og það breytist ekki þótt við göngum í ESB og fáum evru. 

Ragnar Arnalds, 14.12.2006 kl. 21:50

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þetta er bara ekki rétt. Krónan er ekki neinn sérstakur öryggisventill hér á landi, þar sem stjórnvöld munu aldrei þora að fella gengið! það er ekki gert í nútíma hagkerfum. Krónan er hinsvegar notuð til að velta slappri efnahagsstjórn yfir á almenning, þar sem almenningur situr uppi með mikla verðbólgu og lánahækkanir.

Ef við værum með Evru, þá gæti ríkistjórnin ekki farið í stalíniskar virkjanir á þenslutímum því það þyrfti að vera með agaða efnahagsstjórnun. Ríkistjórnin gæti þá heldur ekki farið í skattalækkanir á sama tíma og þeir eru að halda neystlu niðiri með hækkun vaxta. Það er ástæða fyrir því að yfirmenn bankana og ASÍ eru að biðja um að það verði tekin upp Evra.. og ástæðan er einmitt sú að krónan er EKKI að virka sem sá öryggisventill sem þú ert að tala um.

Hinsvegar skil ég varla hvað ég er að reyna tala um fyrir þér.. þú sagðir sjálfur að ísland hefði ekki átt að ganga inn í EES, og ert löngu búinn að bíta það í þig að öll samvinna við útlönd sé af hinu vonda því í henni felst alltaf valdaframsal.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 15.12.2006 kl. 21:48

4 identicon

Staðreyndin er nú sú að framtíð evrusvæðisins er mjög dökk ef marka má ófáa virta aðila á sviði alþjóðafjármála og ófáir sem telja sterkar líkur á að það kunni að líða undir lok innan ekki svo margra ára. Nægir þar að nefna HSBC bankann í London, bandaríska fjárfestingabankann Morgan-Stanley, Nóbelsverðlaunahafann í hagfræði Milton Friedman, Bradford Delong, prófessor í hagfræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, og dr. Ottmar Issing, sem lét af störfum í sumar sem aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópusambandsins. Auk þess hefur framkvæmdastjórn sambandsins nú nýverið tekið sjálf undir þessar spár að hluta. Það er því ekki beint ábyrgt að hvetja til þess að Ísland taki upp gjaldmiðil með slíkar framtíðarspár í farteskinu.

Hjörtur J. Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 22:43

5 Smámynd: Ragnar Arnalds

Það er rétt að stjórnvöld fella ekki gengið nú til dags. En gengið aðlagast breyttum aðstæðum vegna markaðsaðstæðna og mikils viðskiptahalla. Aðlögunin skapar jafnvægi á nýjan leik og þannig verkar gengið sem öryggisventill. Það er mikill misskilningur að ég eða við í Heimssýn séum á móti samvinnu við útlönd. En við erum á móti valdaframsali til Brussel. Þátttaka í ESB er ekki venjulegt alþjóðlegt samstarf heldur flutningur valds til nýs stórríkis sem verið er að byggja upp.

Ragnar Arnalds, 15.12.2006 kl. 22:58

6 Smámynd: Georg Birgisson

Sem einstaklingur þá teldi ég það vera mér til hagsbóta að fá a.m.k. hluta launa minna í Evrum.  Með því opnaðist mér aðgangur að lánakerfi Evru svæðisins á þeim kjörum sem þar bjóðast en án þess að fá á mig þá gengisáhættu sem nú fylgir. Þetta gæti einnig opnað mér aðgang að þjónustufyrirtækjum s.s. tryggingum oþh. auk þess sem líkleg væri að Evrópsk fyrirtæki biðu þjónustu sína hér því þeir myndu sjálfir losna við gengisáættu. 

Georg Birgisson, 18.12.2006 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband