Allende og blóðbað Pinochets

Augusto Pinochet var jarðsettur í gær. Það minnir mig á að í september 1972 sat ég alþjóðlega ráðstefnu í Chile og hitti þar Salvador Allende, forseta landsins. Hann var spurður að því hvort hætta væri á því að herinn myndi ræna völdum í Chile. Allende taldi litla hættu á því. Hann hefði fyrir nokkru skipað nýjan yfirhershöfðingja. Sá hefði engin afskipti haft af stjórnmálum og væri áreiðanlega fráhverfur því að steypa löglega kjörinni stjórn landsins af stóli. Nafn hins lítt þekkta yfirhershöfðingja var Augusto Pinochet.

 

Chile var á þessum árum eitt þróaðasta ríki Rómönsku Ameríku. Þar hafði lýðræði og þingræði blómstrað í tæpa fjóra áratugi og lífskjör voru þar betri en í nálægum löndum. Þegar talið barst að einræðisstjórnum sem víða voru við völd í þessari heimsálfu var viðkvæði heimamanna: “Slíkt gerist ekki hjá okkur.” En í september árið eftir að ég hlýddi á Allende ræða um yfirhershöfðingja sinn, Pinochet, sem ópólitískan verndara lýðræðisins, tók herinn völdin undir forystu hans og með stuðningi Bandaríkjastjórnar; Allende forseti var myrtur og blóðbaðið mikla hófst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Arnalds

Sammála, Þrymur!

Ragnar Arnalds, 14.12.2006 kl. 21:54

2 identicon

Í forsetakosningunum árið 1970 urðu þrír frambjóðendur nær hnífjafnir. Salvador Allende, studdur af sósíalistum og kommúnistum, fékk 36,3 % atkvæða en frambjóðandi hægrimanna hlaut 34,9 %.  Eingin með meirihluta og því gerði Allende samning við þingið og fékk völd gegn því að fara eftir stjórnarskrá landsins í einu og öllu.  Og fara eftir vissum lögum sem þingið setti sérstaklega.  Hann komst því í forseta stól og hóf strax handa við að þjóðnýta banka,námur og margt annað og það með tilskipun framhjá þinginu.  Launahækkanir voru framkvæmdar með seðlaprentun og verðbólga fór í 300%.  Allende hvatti til að land yrði tekið af eigendum þess og þjóðnýtt.  Það varð til þess að framleiðsla matvæla hrundi.  Þjóðin átti hveiti birgðir til þriggja daga undir lokin hjá forsetanum. Mótmæli urðu æ háværari og voru verkföll búin að lama landið þegar Allende fór frá völdum. Árið 1973 samþykkti þingið með miklum meirihluta að Allende hefði brotið stjórnarskrána með því að ræna þingið völdum,skeyta engu um landslög og hefta málfrelsi.  Fulltrúadeild þingsins fór fram á það að her landsins endurreisti lög landsins og í samræmi við skipun þingsins kom herinn Allende frá völdum.  Það sem síðar gerðist reynir eingin að verja.  En rétt skal vera rétt og ættu menn að temja sér að hafa það í heiðri.

Guðmundur (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband