Laugardagur, 19. desember 2015
Örlagaríkt eista
Loksins, loksins hefur það komist á hreint,
að Hitler kallinn var bara með eitt lítið eista.
Víst koma tíðindi þessi sorglega seint,
en samt er ágætt að fá nú loks gátuna leysta.
Ragnar Arnalds
Hitler var með eitt eista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 6. október 2008
Reynt að lauma ófriðareldi í aðgerðapakka ríkisstjórnar
Það vekur furðu að á ögurstundu þegar forsætisráðherra reynir að skapa samstöðu um skyndiaðgerðir til að afstýra frekari bankakreppu hér á landi hefur framkvæmdastjóri ASÍ reynt manna ákafast að smygla ESB-aðild inn í aðgerðapakkann og efna þannig til ófriðar um óskylt mál sem kljúfa myndi alla flokka. Við þurfum samstöðu en ekki sundrungu á þessum seinustu og verstu tímum.
Ákvörðun um ESB-aðild kæmi að engu gagni í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Enn síður þurfum við á því að halda að krónan sé hrópuð niður meira en orðið er þótt hún hafi fallið mikið í því gerningaveðri sem ríkir þessar vikurnar. Það er sannarlega ekkert einsdæmi að gengi myntar viðkomandi lands falli óvænt og verulega þegar ríki lendir í erfiðleikum. Ekki væru margar myntir eftir í heiminum ef allar þær myntir sem lent hafa í miklu gengisfalli hefðu óðara verið afskrifaðar sem ónýtar.
Þeir sem vilja taka upp evru verða líka að skilja að af hálfu ESB er það ófrávíkjanlegt skilyrði til upptöku evrunnar að sú mynt sem fyrir er í landinu sé í góðu jafnvægi. Verðbólga þarf um nokkurt skeið að hafa verið með því lægsta sem þekkist í ESB eða innan við 1,5% meiri en í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst og sams konar regla gildir um vaxtastigið. Þessum skilyrðum hefur verið framfylgt út í æsar gagnvart nýjum aðildarríkjum og þess vegna eru aðeins 15 aðildarríki af 27 með evru. Ef menn vilja skipta um gjaldmiðil á næstu árum þá væri evran að þessu leyti óheppilegasta myntin sem völ væri á fyrir Íslendinga.
Það er því sama hvort við viljum ganga í ESB eða erum andvíg því: meginverkefni okkar allra á næstu árum er að skapa stöðugleika og endurheimta traust á íslensku krónunni. Það er varla unnt að hugsa sér neitt heimskulegra en að tilkynna heiminum á þessari stundu að við höfum gefist upp á krónunni og ætlum að taka upp evru eftir 5-10 ár. Því að auðvitað myndi það taka minnst 5 ár, jafnvel 10 15 ár, að taka upp evru, jafnvel þótt það væri ákveðið þegar í dag.
Flest skilyrðin til upptöku evru höfum við aldrei eða sárasjaldan uppfyllt og við höfum aldrei uppfyllt öll skilyrðin samtímis. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum átt erfiðara með það en aðrar þjóðir að halda niðri verðbólgu. Þessu veldur sá feiknakraftur og athafnasemi sem löngum hefur einkennt íslenskt efnahagslíf með stöðugri hættu á ofþenslu. Til að halda þenslunni og verðbólgunni niðri höfum því neyðst til að vera með háa vexti. Ef við settum vextina niður á þann botn sem dýpstur er í ESB, eins og annað skilyrðið fyrir upptöku evru kveður á um, þá ryki verðbólgan snarlega langt upp fyrir verðbólgumörkin sem okkur yrðu sett. Af þessar ástæðu yrði feikilega erfitt fyrir Íslendinga að uppfylla bæði þessi stífu skilyrði samtímis.
Líklega væri eina ráðið til að svo geti orðið að skapa hér svipað ástand í atvinnumálum og lengi hefur ríkt innan ESB, þ.e. stórfellt atvinnuleysi í langan tíma. Er það ástandið sem framkvæmdastjóri ASÍ er að heimta að kallað verði yfir landsmenn?
Grein Ragnars Arnalds í Morgunblaðinu 6. okt. 2008
Laugardagur, 26. apríl 2008
Evra í skiptum fyrir 200 mílna auðlind?
Margir trúa því að við Íslendingar komumst ekki undan ESB-aðild vegna þess hve fljótandi gengi krónunnar sveiflast mikið á ólgusjó erlendra markaða. En vilja menn fórna 200 mílna landhelgi og margskonar fullveldisréttindum til að fá stöðugra gengi? Ég er sannfærður um að landsmenn samþykkja aldrei í þjóðaratkvæði að erlend ríki fái úrslitavald yfir fiskimiðum landsmanna, vald sem í eðli sínu er ígildi eignarréttar og nær yfir hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft.
Mikið var gert úr nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins og hún túlkuð sem stuðningur landsmanna við ESB-aðild þótt spurningin væri bæði loðin og leiðandi. Í september s.l. var niðurstaðan hjá sama blaði hins vegar þveröfug: 56% voru andvíg því að skipta út krónu fyrir evru og 51 % andvíg aðild. Skoðanakannanir um ESB-aðild sveiflast upp og niður og í þetta sinn hafði gengisfall krónunnar mikil áhrif. Alþjóðlegir markaðir verðfelldu krónuna vegna vandræða stóru íslensku bankanna sem erlendir keppinautar gerðu að skotmarki og stimpluðu sem risa á brauðfótum vegna þess hve mjög þeir hafa þanist út á fáum árum.
En bankarnir rétta brátt úr kútnum og gengi krónunnar nær aftur jafnvægi. Þótt of lágt gengi valdi erfiðleikum er alltof hátt gengi hálfu verra; það veldur stöðnun og atvinnuleysi þegar til lengri tíma er litið. Við getum hrósað happi meðan efnahagslífið er ekki gikkfast í ofurháu gengi evrunnar sem einmitt nú er stóra vandamálið á evrusvæðinu.
Hátt vaxtastig á Íslandi er önnur helsta röksemdin fyrir ESB-aðild. Háu vextirnir eru helsta tæki kerfisins í baráttu við ofþenslu og verðbólguháska. Sumir ESB-sinnar snúa reyndar vaxtaumræðunni á hvolf og fullyrða að sjálfstæð peningastefna sé einskis virði því að háir stýrivextir hafi engin áhrif. Það eru miklar ýkjur enda væri þá ekki kvartað svo mjög yfir háu vaxtastigi. Og sannarlega væri gott að vera laus við háu vextina. En þá þarf að finna önnur úrræði í stað stýrivaxta Seðlabankans og skapa stöðugleika með því að hafa hemil á stórframkvæmdum sem setja allt á annan endann. Hitt er aftur á móti hlægileg ögrun við heilbrigða skynsemi að nefna evruna sem bjargvætt í glímunni við verðbólgu. Augljóst er að á undanförnu þensluskeiði hefðu evruvextir verkað hér á landi sem olía á verðbólgueldinn. Engir hefðu komið jafn illa út úr því og launafólk. Sambland af alltof háu gengi evrunnar og lágum vöxtum kann að virðast girnilegur réttur við fyrstu sýn, en er í eðli sínu skaðlegasta mixtúra sem unnt væri að gefa efnahagslífi okkar eins og sakir standa og hefði valdið óðaverðbólgu en síðar stórfelldu atvinnuleysi þegar efnahagslífið hefði fest sig í sjálfheldunni.
Spurningin er þá: eru landsmenn orðnir svo þreyttir á fljótandi gengi krónunnar og meðfylgjandi gengisflökti að ekki verði hjá því komist að breyta til? Ef svo er mætti að sjálfsögðu taka aftur upp fast gengi sem sveiflast innan vissra marka miðað við meðalgengi nokkurra helstu mynta, svo sem evru, dollars og punds eins og var fyrir fáum árum. En hitt að fórna yfirráðum yfir fiskimiðunum til að geta tekið upp evru er að fara úr öskunni í eldinn. Þá væri þó skárra að taka upp gjaldmiðil ríkis sem ekki heimtar 200 mílna landhelgina í kaupbæti.
En talsmenn ESB-aðildar skauta alltaf létt framhjá landhelgismálinu og fullyrða blákalt að Íslendingar fengju undanþágur í sjávarútvegsmálum. Þeir benda einkum á undanþágu sem Danir fengu varðandi sumarbústaði útlendinga á vesturströnd Jótlands! Er þar ekki nokkuð ólíku saman að jafna? Vissulega finnast dæmi um undanþágur sem aðildarríki hafa fengið frá meginreglum ESB. En æðstu ráðamenn ESB hafa margsagt í viðræðum við íslensk stjórnvöld að Íslendingar geti aldrei undanþegið 200 mílna landhelgi sína; það myndi skapa fordæmi fyrir aðrar þjóðir, t.d. Breta sem haft hafa uppi sömu kröfu.
Margir hallast að inngöngu í ESB vegna þess hve mörg Evrópuríki hafa gengið þá götu; eðlilegast sé að fylgja straumnum. En menn verða að átta sig á að innganga í ESB er langtum óhagstæðari fyrir Íslendinga en aðrar þjóðir. Í engu Evrópuríki vegur útflutningur sjávarafurða eins þungt og hér á landi eða um 38% (2007) en um leið er fiskurinn eina auðlindin sem ESB hefur beinlínis lagt undir sína stjórn. Á árlegum ráðherrafundi ESB eru ákvarðanir teknar um nýtingu sameiginlegra fiskimiða og er sá fundur oft nefndur "nótt hinna löngu hnífa". Þar hefðu okkar menn 3 atkvæði af um 350.
Vel má vera að ráðherrar annarra ríkja sýni Íslendingum sanngirni og taki tillit til þess að við höfum setið einir að fiskimiðum okkar undanfarna áratugi. En eftir að við hefðum framselt þeim réttinn til að ráða yfir fiskimiðunum hefðum við enga tryggingu fyrir því að við yrðum ekki órétti beittir. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á stjórnarskrársáttmála ESB og þar er endanlega geirneglt að ESB hafi úrslitavald (exclusive competence) á sviði nýtingar sjávarauðlinda. Ljóst er að þessari meginreglu yrði ekki haggað í aðildarviðræðum.
Föstudagur, 26. október 2007
Ragnar Arnalds: Minnkandi áhrif smáríkja í ESB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Sjávarútvegsreglur ESB eru óásættanlegar
Í bókun fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins var einnig á það bent að afli Íslendinga úr svonefndum flökkustofnum sem veiðast bæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar, þ.e. síld, loðna, kolmunni, rækja og karfi, er háður samningum við önnur nálæg ríki svo og við Evrópusambandið. Við aðild að ESB fellur niður réttur aðildarríkja til að gera sjálfstæða fiskveiðisamninga við önnur ríki og fer framkvæmdastjórn ESB með samningsumboð fyrir þeirra hönd. Íslendingar eiga oft í samningum við ESB um þessi veiðiréttindi og hefur oft verið tekist svo hart á um þessa hagsmuni, að viðræður hafa staðið yfir árum saman, sbr. nýlegar samningaviðræður um kolmunna. Ef til aðildar kæmi sæti Evrópusambandið hins vegar báðum megin við samningsborðið þegar tekist væri á um þessi mikilvægu veiðiréttindi. Fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á sjávarútvegi er það frágangssök og með öllu ógerlegt að sætta sig við þá aðstöðu enda hefur verðmæti þess afla sem fæst úr flökkustofnum verið nærri þriðjungur af heildaraflaverðmæti landsmanna mörg undanfarin ár.
(Grein í Morgunblaðinu 14. mars 2007)Laugardagur, 13. janúar 2007
Evruhlátur breyttist í dollaraglott
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Skautað létt yfir staðreyndir
Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. desember s.l. benti ég einmitt á hversu yfirborðlega væri fjallað í fjölmiðlum þessar vikurnar um hlut krónunnar í efnahagsvanda Íslendinga. Krónan er gerð að blóraböggli fyrir því sem illa gengur í efnahagsmálum þótt augljóst sé að hún er ekki sökudólgurinn. Greinin var svohljóðandi:
Það er tilgangslaust að skamma hitamælinn Hún var undarleg þulan sem Hjálmar Sveinsson las yfir hlustendum á Rás eitt s.l. laugardagsmorgun. Það var íslenska krónan sem Hjálmar beindi spjótum sínum að. Vafalaust hefur fleirum en mér blöskrað að maður sem hefur dagskrárgerð að atvinnu skuli leyfa sér að fjalla um margþætt og umdeilt viðfangsefni á svo yfirborðslegan hátt, rétt eins og aðeins sé á því ein hlið. Skoðum því aðra hlið á þeim peningi. Krónan hefur vissulega verið í sviðsljósinu seinustu mánuðina vegna þess að gengi hennar ofreis á árinu 2005 en seig svo aftur í vor og sumar. Nú er gengið aftur komið í eðlilegt horf að flestra áliti. Sveiflurnar og óstöðugleikinn sem þeim hefur fylgt valda þó vissulega óþægindum og gremju. En krónan sjálf á þar litla sök. Ástæða gengissveiflunnar var ofþensla í hagkerfinu vegna mestu stóriðjuframkvæmda í Íslandssögunni og kraftmikil innkoma bankanna á íbúðalánamarkað. Gengi krónunnar er hitamælirinn sem sveiflast eftir aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Það er út í bláinn að skammast út í hitamælinn. Vandamál af þessu tagi hverfa ekki þótt hitamælirinn hverfi. En gengisaðlögun í samræmi við taktinn í íslensku efnahagslífi er mikils virði. Svo var að heyra að áróðursþula Hjálmars á Rás eitt byggði á grein sem birtist í Viðskiptablaðinu 13. des. s.l. undir fyrirsögninni Krónan í kreppu er markaðurinn að henda henni út? Þar er því haldið fram í inngangi að íslenski markaðurinn noti erlend lán í sívaxandi mæli. En þegar greinin er lesin kemur á daginn að fyrirsögn blaðsins er eins konar platfrétt eða ekki frétt. Því að blaðið leitar frétta hjá forstöðumönnum greiningardeilda KB-banka og Landsbanka sem svara því til að markaðshlutdeild krónunnar í lána og bankakerfinu hafi ekkert breyst frá því sem verið hefur nú um nokkurt skeið. Að sjálfsögðu eru lán í erlendri mynt á Íslandi ekkert nýmæli. Og hitt eru heldur engin tíðindi að íslensk fyrirtæki sem sum eru að meiri hluta með starfsemi sína erlendis geri upp reikninga sína í erlendri mynt. Það er formsatriði sem engu máli skiptir og full rök eru fyrir. Enginn skyldi ímynda sér að íslenska krónan sé eina myntin sem sveiflast. Dollarinn hefur fallið heilmikið á þessu ári eða um 10-12% gagnvart pundi og evru. Og evran féll um nærri 30% á rúmi ári snemma á þessum áratug án þess að nokkrum dytti í hug að halda því fram að þessi draumadís ESB-sinna sé handónýt eins og nú er í tísku að segja um krónuna. Þeir sem harðastan áróður reka gegn krónunni mættu líka hafa í huga að aldrei í sögunni hafa útlendir fjárfestar borið svo mikið traust til krónunnar sem nú á þessu ári því að þeir hafa fest fé sitt í skuldabréfum sem erlend fyrirtæki hafa gefið út í íslenskum krónum og nema nú um 300 milljörðum króna (ýmist nefnd krónubréf eða jöklabréf). Enda þótt krónan félli í sumar létu þessir erlendu fjárfestar eins og ekkert væri og lítil ókyrrð var merkjanleg á þeim markaði. Þetta bendir nú ekki beinlínis til að krónan sé jafn handónýt og sumir vilja vera láta. Í miðju moldviðrinu sem gengið hefur yfir íslensku krónuna kom hingað maður sem nefndur hefur verið guðfaðir evrunnar, Róbert A. Mundell. Hann lét þess getið í viðtali við Morgunblaðið, nokkrum dögum eftir að hann var gerður að heiðursdoktor í hagfræði við Háskóla Íslands, að hann teldi ekki ráðlegt fyrir Íslendinga að taka upp evru heldur eigi að notast við núverandi fyrirkomulag og sjá hvað setur. (Mbl. 26/10/06) Ekki sáu Hjálmar Sveinsson, dagskrárgerðarmaður, eða greinarhöfundur Viðskiptablaðsins ástæðu til að geta þessa í umfjöllun sinni um krónuna og var þó þar á ferð sá sem ætti að vita hvað hann syngur.
Fimmtudagur, 21. desember 2006
Viðræður við ESB í hnút og aðeins 10 dagar til stefnu
Mánudagur, 18. desember 2006
Pólitískar njósnir þarf að banna í stjórnarskrá
Laugardagur, 16. desember 2006
Er þörf á að fjölga flokkum?
Fréttir berast af því að aldraðir hyggi á framboð í þingkosningunum í vor til að leggja áherslu á bætt kjör sín. Sama á hugsanlega við um náttúruverndarfólk í uppreisn gegn stóriðjustefnu og landspjöllum af völdum stórvirkjana. Bæði þessi málefni eru þess eðlis að þau hljóta og eiga að verða meðal helstu umræðuefna í komandi kosningabaráttu. En ég efast mjög um að neinum sé greiði gerður með sérframboðum. Eins-máls-framboð hafa sjaldan borið mikinn árangur. Í rauninni er Kvennalistinn eina dæmið um velheppnað framboð af þessu tagi á síðari áratugum enda með breiðari skírskotun. Misheppnað framboð aldraðra eða náttúruverndarmanna geta skaðað málstað þeirra fremur en hitt.